Innlent

Sárt en höfum séð það svartara

Grímur Atlason bæjarstjóri segir enga uppgjöf í Bolvíkingum. Þeir ætli þvert á móti að spýta í lófana og gefa í.
Grímur Atlason bæjarstjóri segir enga uppgjöf í Bolvíkingum. Þeir ætli þvert á móti að spýta í lófana og gefa í.

48 af 60 starfsmönnum í landvinnslu Bakkavíkur á Bolungarvík hefur verið sagt upp störfum. Fyrirtækið segir ástæður uppsagnanna vera erfiðan rekstur rækjuvinnslu á undanförnum árum, en erfiðlega hefur reynst að afla hráefnis fyrir vinnsluna. Í tilkynningu frá félaginu segir að stjórnendur félagsins vonist þó til þess að að það takist að afla hráefnis á ný svo að vinnsla geti hafist aftur.

Grímur Atlason, bæjarstjóri á Bolungarvík, segir tíðindin vissulega sár, en að Bolvíkingar hafi séð það svartara. „Þetta hefur verið í kortunum hjá þeim í nokkurn tíma, þannig að þetta kom svo sem ekkert mjög á óvart. Það hafa verið erfiðleikar í rækjuvinnslunni hjá þeim líkt og annars staðar. En það er náttúrlega ekki ljóst hvenær af þessum uppsögnum verður og við vonum að sem fæstir muni á endanum missa vinnuna.“

Grímur segir þó enga uppgjöf í Bolvíkingum. „Hjá okkur er ekkert annað að gera en að spýta í lófana og hraða framkvæmdum á okkar vegum. Það hefur kannski verið þensla alls staðar annars staðar á landinu en það hefur ekki verið þensla hjá okkur. Ólíkt ríkisstjórninni teljum við að það eigi að gefa í í kreppum og draga saman í þenslu. Það er það sem við ætlum að gera, gefa í.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×