Innlent

Meirihlutavilji fyrir aðskilnaði

57,2 prósent þjóðarinnar eru fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. 42,8 prósent eru því mótfallin og er munurinn marktækur.

Ef litið er til afstöðu fólks eftir kyni segjast 62,0 prósent karla vera fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju. Aðeins rétt rúmur meirihluti kvenna, 51,6 prósent, segist hlynntur aðskilnaði.

Ef litið er til afstöðu fólks eftir því hvaða stjórnmálaflokk það myndi kjósa er meirihluti kjósenda Frjálslynda flokksins, Samfylkingar og Vinstri grænna fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju og er munurinn marktækur. 69,6 prósent þeirra sem styðja Frjálslynda flokkinn, 62,8 prósent þeirra sem styðja Samfylkingu og 70,7 prósent þeirra sem styðja Vinstri græn segjast hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju.

Þá er marktækur munur á afstöðu þeirra sem ekki gefa upp hvaða flokk þeir myndu kjósa og segjast 56,2 prósent þeirra vera fylgjandi aðskilnaði þessara tveggja stofnana.

Örlítið fleiri stuðningsmenn Framsóknarflokksins, 51,5 prósent, eru fylgjandi aðskilnaði en andvígir. Hins vegar segjast aðeins fleiri stuðningsmenn Sjálfstæðisflokkins, 49,7 prósent, andvígir aðskilnaði ríkis og kirkju en fylgjandi.

Hringt var í 800 manns laugardaginn 14. apríl og skiptust svarendur jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir kjördæmum. Spurt var: Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) aðskilnaði ríkis og kirkju? 75,1 prósent tók afstöðu til spurningarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×