Erlent

Reykingamenn mótmæla reykingabanni í Danmörku

Reykingamenn alls staðar að úr Danmörku söfnuðust saman fyrir framan danska þinghúsið í Kaupmannahöfn í dag með sígarettu og bjórglas í hendi til þess að mótmæla fyrirhuguðum lögum um bann við reykingum á veitingahúsum í landinu.

Þingið hefur nú til umfjöllunar frumvarp sem meðal annars gerir ráð fyrir að eigendur kráa og kaffihúsa, sem eru stærri en 40 fermetrar, verði að innrétta sérstakt reykingarými til að hlífa þeim sem ekki reykja við reyknum. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi um miðjan ágústmánuð.

Reykingamennirnir, sem komu í rútu meðal annars frá Álaborg, Árósum og Svendborg, segja gróflega brotið á rétti sínum og afhentu þeir þinginu undirskriftir yfir 61 þúsund manna sem mótfallnir eru banninu. Þá munu fulltrúar mótmælenda ganga á fund heilbrigðsnefndar þingsins og útskýra sína afstöðu síðar í dag eftir því sem segir á vef Jótlandspóstsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×