Skoðun

Að tyfta eigin frambjóðendur

Einar K. Guðfinnsson skrifar
Lífið er svo margbreytilegt, af því það kemur manni sífellt á óvart. Sumt er fyrirsjáanlegt í lífinu, en stöðugt koma upp ný tilvik og það eykur fjölbreytnina.

Þetta hefur gerst núna, þegar Samfylkingin birti áherslur í efnahagsmálum, með mikilli kynningu þar sem einn reyndasti hagfræðingur okkar og efnahagsráðgjafi ótölulegra ríkisstjórna, kynnti áherslur í nýju riti Samfylkingarinnar um stöðu og horfur í efnhagsmálum. Leiðarstefið er “aukið almennt aðhald í efnahagsstjórninni”.

Þetta er skýrt og þýðir í raun minni útgjöld, nema vitaskuld að ætlunin sé að hækka skatta, sem aldrei hefur þó komið fram í beinum tillögum flokksins. Raunar er sérstaklega tekið fram í umfjöllun um tillögurnar, að skattar eigi ekki að hækka. Það er því ljóst að krafan um aukið aðhald, felur í sér fyrirheit um lægri útgjöld. Þetta er áhugavert.

Það sem er svo athyglisvert við þessa stefnumótun, sem flokkurinn kynnir undir merkjum sínum, er sú staðreynd að hún er algjörlega á skjön við málflutning frambjóðenda flokksins þessi dægrin. Við sjáum til dæmis í Norðvesturkjördæmi breiðsíður og opnuviðtöl við frambjóðendur þar sem þeir lofa öllu fögru í stórum málaflokkum. Það er greinilegt að hugmyndirnar um aukið almennt efnahagsaðhald hafa ekki borist þeim til eyrna. Milljarðaloforð í samgöngumálum eru borin fram með álíka áreynslu og þegar vatn er drukkið.

Félagar þeirra í öðrum landsbyggðarkjördæmum, virðast litlir eftirbátar að þessu leyti, samkvæmt frásögnum fjölmiðla og blaðagreinum.

Á fundum eru kynntar áherslur í fjárfrekum málaflokkum þar sem án hiks er lagt til að stórauka útgjöld ríkisins, svo nemur milljörðum og milljarðatugum.

Í eldhúsdagsumræðunni við þinglok mætti þingmaður flokksins til leiks með langan, digran og rándýran loforðalista. Sjálfur varaformaður flokksins eru svo heppinn að á sömu dagblaðsopnu og greint er frá hinni nýju aðhaldsstefnu flokksins í efnahagsmálum, kynnir hann milljarða loforðalista í átta tölusettum liðum, sem er augljóslega gjörsamlega á skjön við hina nýju efnahagssgtefnu flokksins.

Hér hefur það því gerst, sem er mikið nýmæli í stjórnmálum, að flokkur hefur sett fram stefnu, sem augljóslega er ætlað að tyfta málflutning frambjóðendanna.

Höfundur er sjávarútvegsráðherra.




Skoðun

Sjá meira


×