Erlent

Menn verða uppgefnir á að sofa hjá

MYND/Getty Images

Vísindamenn í Austurríki hafa komist að því að heilastarfsemi karlmanna minnki tímabundið við að sofa í sama rúmi og önnur manneskja. Þegar þeir deili rúmi með öðrum heila nótt truflist svefninn, hvort sem þeir njóti ásta eða ekki. Þetta spilli andlegri getu þeirra næsta dag.

Samkvæmt rannsókn New Scientist gengur konum betur við sömu aðstæður þar sem þær sofa fastar.

Á fréttavef Ananova kemur fram að prófessor Gerhard Kloesch og samstarfsfólk hans við Háskólann í Vínarborg, hafi rannsakað átta ógift og barnlaus pör á þrítugsaldri.

Hvert þeirra var beðið um að eyða tíu nóttum saman og tíu nóttum í sitt hvoru lagi. Vísindamennirnir skoðuðu hvíldarferli þeirra og mældu hreyfingar með úlnliðsskynjurum. Næsta dag voru pörin beðin um að framkvæma auðveld vitsmunapróf og mælt var magn streituhormóna.

Þrátt fyrir að mennirnir segðu að þeir svæfu betur með félaga, gekk þeim verr í prófunum. Niðurstöðurnar voru að þeir trufluðust meira í svefni. Konunum tókst hins vegar að sofa fastar þegar þær loksins sofnuðu og virtust hressari en svefntíminn gaf til kynna.

Neil Stanley doktor við háskólann í Surrey og sérfræðingur í svefnrannsóknum sagði að manninum hefði aldrei verið ætlað að deila rúmi með öðrum. Það væri í raun undarlegt og ekki skynsamlegt. Fyrir utan að þurfa að hlusta á óhljóð eins og hrotur og berjast um sængina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×