Erlent

Bretar settu upphrópunarmerki í stað spurningamerkja

Hans Blix, fyrrverandi yfirmaður Vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna
Hans Blix, fyrrverandi yfirmaður Vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna Getty Images

Bretar tóku skýrslu um gereyðingarvopn í Írak og skiptu út spurningamerkjum fyrir upphrópunarmerki til að rökstyðja innrás í landið. Þetta segir Hans Blix fyrrverandi yfirmaður Vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna í viðtali við Sky-sjónvarpsstöðina.

Blix fór fyrir liði manna í leit að gereyðingarvopnum í Írak, liði sem ekki fann nein merki um slíkt. Hann segist viss um að atburðarásin hafi verið fyrir fram ákveðin og fréttir af efnavopnum í eigu Íraka hafa verið uppspuna. Blix sagði að Tony Blair og George Bush hafi misst trúverðugleika þegar afhjúpað var hversu gölluð skýrslan var. Þá líkti hann aðferðum Bandaríkjastjórnar við nornaveiðar.

Blix sagði að ef leyniþjónustur Bretlands og Bandaríkjanna hefðu raunverulega reynt að komast til botns í því hvort Írakar ættu gereyðingarvopn hefði vantað ástæðu til innrásar.

Aðspurður hvort hann teldi árás á Íran líklega sagði Blix: „Það kæmi mér ekkert á óvart ef það væri fólk í Washington sem færði rök fyrir því en ég held líka að andrúmsloftið í Washington hafi breyst mikið. Ég held að bandaríska þjóðin sé orðin leið á hernaðarævintýrum". Þá sagði Blix að hann teldi mörg ár þar til Íranir gætu átt kjarnavopn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×