Viðskipti erlent

SAS býður farþegum aflátsbréf

Flugfélagið SAS mun frá og með haustinu bjóða þjónustu sem byggir á svipaðri hugmynd og aflátsbréf kaþólsku kirkjunnar á miðöldum. Bréf kirkjunnar áttu að tryggja styttri dvalartíma í hreinsunareldinum. Bréf SAS eru hins vegar til þess gerð að hreinsa samvisku flugfarþega. Þeim mun gefast kostur á að leggja sautján krónur danskar ofan á fargjaldið. Krónurnar munu svo renna beinustu leið í græn verkefni sem binda samsvarandi magn gróðurhúsalofttegunda og losna við flugferðina. Þannig geta farþegarnir flogið með hreina og strokna samvisku. Íslendingar fá enga syndaaflausnFleiri flugfélög hafa farið svipaða leið og SAS. British Airways er þar á meðal og hefur þjónustan mælst vel fyrir þar. Ekki ómerkari maður en Tony Blair hefur fullyrt að hann muni framvegis borga umhverfisskattinn fyrir sig og fjölskyldu sína. Viðskiptavinir Icelandair geta þó ekki fylgt í fótspor hans og keypt sér syndaaflausn. Guðjón Arngrímsson, upplýsingastjóri Icelandair Group, segir engar áætlanir um að bjóða þeim upp á það í bráð. Þar á bæ sé þó vel fylgst með umræðunni um mengun af völdum flugumferðar sem verði æ háværari. Allra leiða sé leitað til að takmarka mengun sem hlýst af fluginu.




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×