Innlent

Ekki færri viljað ESB síðan 2003

Skoðanakönnun Eftir mikla evruumræðu hér á landi, segjast einungis 37,1 prósent þeirra, sem afstöðu tóku í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, vilja að evra sé tekin upp sem gjaldmiðill hér á landi en 62,9 prósent eru því hins vegar mótfallin.

Nokkur munur er á afstöðu eftir kyni og búsetu. Þannig eru karlmenn frekar því fylgjandi en konur að tekin sé upp evra. 40,4 prósent karla eru því fylgjandi og 59,6 prósent mótfallin. En 33,6 prósent kvenna eru fylgjandi hugmyndinni að taka upp evru á Íslandi en 66,4 prósent mótfallin. Þá eru 67,3 prósent íbúa utan höfuðborgarsvæðisins mótfallnir hugmyndinni að taka upp evru og 32,7 prósent fylgjandi. 59,9 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins eru því hins vegar mótfallnir, en 40,1 prósent fylgjandi.

Þá hefur andstaða við að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu ekki verið meiri síðan í könnun Gallup frá því í apríl 2003. Einungis 36,0 prósent segjast vilja að sótt sé um aðild, en 64,0 prósent eru því mótfallin. Síðast þegar spurt var um afstöðu til aðildarumsóknar í könnun Fréttablaðsins, 19. febrúar á síðasta ári, voru 55,2 prósent mófallin aðildarumsókn, en 44,8 prósent fylgjandi. Stuðningur við aðildarumsókn hefur því dregist saman um tæplega níu prósentustig frá því í febrúar á síðasta ári.

Mest hefur andstaða aukist meðal íbúa utan höfuðborgarsvæðisins, eða um 15,4 prósentustig. Nú eru 68,0 prósent íbúa utan höfuðborgarsvæðisins því mótfallin að sótt sé um aðild að Evrópusambandinu, en 32,0 prósent eru því fylgjandi.

Á höfuðborgarsvæðinu eru hins vegar 61,2 prósent mótfallin aðildarumsókn og hefur andstaðan aukist um 4,2 prósentustig á þessu liðna ári frá síðustu könnun blaðsins. 38,7 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins vilja hins vegar að sótt sé um og er stuðningurinn við umsókn ekki meiri en þar.

Litlu munar nú á afstöðu til aðildarumsóknar á milli karla og kvenna, en fleiri konur eru nú andsnúnar aðildarumsókn en fyrir ári. 63,2 prósent kvenna vilja ekki að sótt sé um aðild að Evrópusambandinu nú, en það voru 52,8 prósent kvenna í síðustu könnun blaðsins. 36,8 prósent kvenna vilja hins vegar að sótt sé um. 64,7 prósent karla eru mótfallin aðildarumsókn og hefur þeim fjölgað um 7,3 prósentustig frá því í síðustu könnun. 35,3 prósent karla eru nú því fylgjandi að sótt sé um aðild að Evrópusambandinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×