Handbolti

Lélegasti leikur Íslands í mörg ár

Mynd/AntonBrink
Fyrrum landsliðsmaðurinn Sigurður Sveinsson segist vera í hálfgerðu losti eftir leik Íslendinga og Úkraínumanna í dag. Hann segir leik íslenska liðsins þann slakasta sem hann hafi séð í mörg ár og setur spurningamerki við hugarfar leikmanna í dag.

"Maður er bara í sjokki, það er ekkert flóknara, " sagði Sigurður þegar Vísir náði tali af honum í kvöld. "Ég held að þetta sé einn af lélegri leikjum íslenska landsliðsins undanfarin fimm ár og það var bara sorglegt að sjá hvað þeir fóru niður á lágt plan og fundu engin svör við neinu. Ég held ég hafi aldrei séð liðið gera svona mörg tæknimistök og misheppnaðar sendingar og ég er ekki frá því að þau hafi verið 15 til 16 í leiknum.

Það var líka sorglegt að sjá marga af okkar bestu leikmönnum spila bara eins og krakkar og ég veit ekki hvort þeir hafa horft á leik Úkraínu og Frakklands og haldið bara að þetta yrði létt, eða hvað það nú var.

Mér fannst vanta hraða og leikgleði í íslenska liðið og ég er ekki frá því að strákarnir hafi bara ekki trúað að þeir gætu tapað þessum leik. Það var eins og þeir héldu alltaf að þetta færi að snúast við og svo gerði úkraínska liðið allt of mörg mörk fyrir utan þar sem var ekki einu sinni farið almennilega út í þá. Þetta er bara alveg ótrúlegt.

Það er ekkert óvenjulegt að einn, tveir eða þrír leikmenn eigi slæman dag, en mér fannst allt liðið meira og minna vera fjarri sínu besta í dag nema kannski einna helst Alexander Petersson," sagði Sigurður vonsvikinn, en hann á bókaða ferð út til Þýskalands á milliriðlana, en þar er nú frekar ólíklegt að íslenska liðið verði úr því sem komið er.

"Frakkarnir eru með svo breiðan hóp að það skiptir engu máli hvort þeir hvíla aðalliðið eða ekki - þetta eru allt jafn sterkir menn. Við eigum auðvitað möguleika á að vinna þá, en það þarf þá að vera himinn og haf milli spilamennskunnar milli daga ef svo á að vera. Við eigum varla annan eins leik og í dag aftur í bráð," sagði Sigurður Sveinsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×