Erlent

Ísraelsmenn ráðgera kjarnavopnaárás gegn Íran

F-16I orrustuvél Ísraelshers á flugi
F-16I orrustuvél Ísraelshers á flugi

Ísraelsmenn hafi gert leynilega áætlun um að gera árásir með kjarnavopnum á staði í Íran, þar sem úran er auðgað, að því er segir í grein breska blaðsins Sunday Times í dag. Tvær orrustuflugsveitir Ísraelshers æfa nú árásir á kjarnorkuúrvinnslustöð í Íran með aflminni kjarnorkusprengjum, svonefndum "bunker-busters" að því er blaðið hefur eftir nokkrum heimildum innan Ísraelshers.

Þetta yrði fyrsta árásin þar sem kjarnavopn eru notuð síðan 1945, þegar Bandaríkjamenn sprengdu japönsku borgarinar Hiroshima og Nagasaki. Sprengjur Ísraelsmanna hefðu hver um sig 1/15 af eyðileggingarmætti Hiroshima-sprengjunnar.

Samkvæmt áætlun Ísraelsmanna yrðu hefbundnar leysi-stýrðar sprengjur notaðar til að opna "göng" að skotmörkunum. Dverg-kjarnasprengjum ("Mini-nukes") yrði síðan strax í kjölfarið skotið inní framleiðsluver Írana í Natanz, þar sem þær spryngju langt neðanjarðar til að minnka hættu á geislavirkni á svæðinu. Talið er að framleiðsluverið sé jafnvel tugi metra neðanjarðar undir steinsteypu og klöpp.

Um leið og græna ljósið er gefið verður farinn einn leiðangur og gerð ein árás, sem ræður niðurlögum írönsku kjarnorkuáælunarinnar.

Það mat leyniþjónustu Ísraelsmanna, Mossad, að Íranir séu við það að framleiða nægilegt auðgað úran til að geta smiðað kjarnavopn innan tveggja ára hafa meðal annars ýtt undir þessa áætlanagerð hersins. Kjarnavopn yrðu þó aðeins notuð, að sögn Sunday Times, ef hefðbundin vopn yrðu ekki talin duga og ef Bandaríkin neituðu að skerast í leikinn.

Bandarískir og ísraelskir stjórnarfulltrúar hafa hist nokkrum sinnum til að ræða hugsanlegar hernaðaraðgerðir. Hernaðarsérfræðingar segja að með því að skýra frá áætlanagerðinni núna, gætu Ísraelsmenn verið að þrýsta á Írani að hætta auðgun úrans, eggja Bandaríkjamenn til átaka eða mýkja upp almenningsálit alþjóðasamfélagsins fyrir hugsanlega árás.

Heimildir Sunday Times nærri Pentagon, varnarmálaráðuneytinu, segja afar ósennilegt að Bandaríkjamenn myndu samþykkja notkun kjarnavopna. Robert Gates, nýi varnarmálaráðherrann, hefur sagt að hervaldi verði ekki beitt nema sem síðasta kosti í stöðunni, og Ísraelsmenn hafa dregið þá ályktun að það sé þeirra sjálfra að taka ákvörðun um árás.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×