Innlent

Íslenskur dvergkafbátur seldur til tveggja erlendra sjóherja

Kafbáturinn sem framleiddur er af fyrirtækinu Hafmynd, var seldur bandaríska sjóhernum árið 2005 og hann notaður við sprengjuleit en kafbátur var líka seldur kanadískri rannsóknarstofnun. Á blaðamannafundi á morgun verður tilkynnt um að samningar hafi tekist um sölu á kafbátnum til sjóherja tveggja annarra ríkja. Samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 er annað ríkið evrópskt en ekki er gefið upp hvert hitt ríkið er, en það ku hvorki vera evrópskt né amerískt.

Ennfremur munu aðstandendur fyrirtækisins Hafmyndar tilkynna um um alþjóðlega viðurkenningu sem dvergkafbáturinn hefur fengið þar sem hann er talinn gagnast mjög vel í vörnum gegn hryðjuverkum í höfnum. Kafbáturinn, sem nefnist GAVIA, er sjálfstýrður rannsóknarkafbátur og þarf einungis eina til tvær manneskjur til að sjósetja bátinn. Dvergkafbáturinn er ekki einungis notaður í hernaðartilgangi, heldur líka við sjómælingar, umhverfisrannsóknir og neðansjávareftirlit. Fyrirtækið Hafmynd var stofnað 1999 og er Össur Kristinsson, stoðtækjaframleiðandi, aðaleigandi þess.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×