Innlent

Mikil ölvun á slysadeild aðfaranótt jóladags

Mikið álag var á slysa- og bráðamóttöku Landspítalans í nótt. Þrátt fyrir að allir skemmtistaðir hafi verið lokaðir minnti ástandið á laugardagskvöld þegar ölvun er mikil í miðbæ Reykjavíkur. Yfirlæknir á slysa- og bráðamóttöku segir mikla ölvun, þeirra sem þangað leituðu, hafa komið sér á óvart og benda til þess að áfengis- og vímuefnaneysla um jólin sé að aukast.

Mikið annríki myndaðist á slysadeildinni upp úr miðnætti og þurfti að kalla út aukamannskap. Ófeigur Þorgeirsson, yfirlæknir á slysa- og bráðamóttöku Landspítalans, segir fæsta hafa komið vegna slysa en að allir sem þangað leituðu í nótt hafi verið ölvaðir eða undir áhrifum lyfja.

Aðfaranótt jóladags hefur venjulega verið fremur róleg á slysadeildinni og því kom nóttin Ófeigi á óvart. Álagið í nótt var svipað og gerist um helgar þegar fyllerí er mikið í miðbæ Reykjavíkur og skemmtistaðir eru opnir.

Ófeigur vonar að síðastliðin nótt hafi verið undantekning en út frá þessu megi telja að neysla áfengis og eiturlyfja sé að aukast um jólin. Hann segir deildina vel undirbúna ef næsta nótt verður jafn erfið en vonar að allt verði rólegra og fólk hafi það í huga að jólin séu hátíð barnanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×