Innlent

Markaðsvirði Icelandair hækkaði um milljarð við skráningu

Markaðsvirði Icelandair hækkaði um tæpan milljarð við skráningu félagsins í Íslensku kauphöllinni í morgun. Forstjóri fyrirtækisins segir skráninguna auka sveigjanleika fyrirtækisins og reiknar með að virði félagsins muni vaxa á næstu tólf mánuðum.

Útboðsgengið á hlutabréfum í Icelandair fyrir skráninguna í morgun var 27, sem þýðir að félagið var metið á 27 milljarða króna. Strax við upphaf skráningar fór gengið í 27,8, og því hækkaði markaðsvirði félagsins um tæpan milljarð.

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, segir skráninguna þýða fjölgun í eigendahópnum sem styrki og efli fyrirtækið. Fyrirtækið hafi vaxið ört undanfarin ár og Icelandair ætli sér að taka þátt í auknum vexti ferðaþjónustunnar sem framundan sé í heiminum. Skráningin stuðli að auknum aga á rekstri fyrirtækisins.

Jón Karl segir enn fremur að skráningin auki sveigjanleika fyrirtækisins því nú komi erlendir fjárfestar inn í það sem sé mjög ánægjulegt. Vonandi verði meiri áhugi þar og þar með geti fyrirtækið vaxið meira inn á fleiri erlenda markaði.

Páll Harðarson, aðstoðarforstjóri Kauphallar Íslands, telur sérstaklega hagstætt að ganga inn í Kauphöllina um þessar mundir þegar hún er orðin hluti af Norrænu Kauphöllinni OMX Nordic Exchange. Þetta skapi Icelandair og öðrum skráðum félögum ný tækifæri.

Til að mynda muni margfalt fleiri fjárfestar fá upplýsingar um félög í Kauphöllinni en áður. Nú eru þeir um þrjú þúsund en inann skamms verða þeir 130 þúsund.

Páll segir að með aðild að OMX verði íslensk félög miklu sýnilegri op það geri erlendum fjárfestum auðveldara með að bera þau saman við sambærileg félög erlendis. Þá vonist Kauphallarmenn eftir því að hægt verði að fá með þessu fleiri erlenda aðila að Kauphöllinni á næstu mánuðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×