Innlent

Sími þingmanns var hleraður

Hannibal Valdimarsson
Hannibal Valdimarsson

Dómsúrskurður um að lögreglunni í Reykjavík væri leyfilegt að hlera síma Hannibals Valdimarssonar var kveðinn upp sunnudaginn 26. febrúar 1961, en þá sat Hannibal á þingi og naut því þinghelgi. Þetta kemur fram í gögnum sem Ólafur, sonur Hannibals, hefur fengið frá þjóðskjalaverði.

Að sögn Ólafs var úrskurðurinn fenginn að beiðni dómsmálaráðuneytisins og Baldur Möller deildarstjóri skrifaði undir beiðnina fyrir hönd ráðuneytisins. Sakadómari, Valdimar Stefánsson, kom þann sama dag upp í ráðuneyti og kvað upp dómsúrskurð um að hlerun væri heimil á heimasíma Hannibals og vinnusíma hans hjá Alþýðusambandi Íslands, en Hannibal var forseti þess.

Einnig var veitt heimild til hlerunar á símanúmerum annarra, en yfir þau hefur verið strikað. Annar af tveimur vottum að úrskurðinum var Sigurjón Sigurðsson, þáverandi lögreglustjóri.

Dómsúrskurður Valdimars byggist á tveimur röksemdum. Að þeir sem hleraðir skuli, liggi undir grun um að vilja trufla starfsfrið Alþingis og að þeir séu grunaðir um að ógna öryggi ríkisins.

Á þessum tíma var Hannibal annar af tveimur leiðtogum stjórnarandstöðunnar, búinn að sitja á þingi í hálfan annan áratug, eða síðan 1946. Hann hafði verið í ríkisstjórn skömmu áður, gegndi embætti félags- og heilbrigðismálaráðherra til ársloka 1958.

Ekki fylgir upplýsingum þjóðskjalavarðar hversu lengi hleranirnar stóðu yfir né hver nýtti sér upplýsingar úr þeim. Ekki heldur hvað um þær varð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×