Enski boltinn

Arsenal í viðræðum um miðvörð og framherji gæti verið á leiðinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mario Mandzukic er á radarnum hjá Arsenal.
Mario Mandzukic er á radarnum hjá Arsenal. vísir/getty
Arsenal og Valencia eiga í viðræðum um kaup enska félagsins á þýska miðverðinum Shkodran Mustafi samkvæmt frétt Sky Sports.

Mustafi er 24 ára gamall þýskur landsliðsmaður sem hefur spilað með Valencia í tvö ár en hann var þar áður á mála hjá Southampton og Everton á Englandi þar sem hann spilaði ekki leik.

Riftunarverð miðvarðarins hjá Valencia er 42 milljónir punda en Sky í Þýskalandi segist hafa heimildir fyrir því að Arsenal geti fengið Mustafi fyrir 25,3 milljónir auk 8,4 milljóna í árangurstengdar greiðslur.

Mustafi æfði með Valencia í fyrsta sinn á þessu undirbúningstímabili á fimmtudaginn eftir EM-fríið sitt en hann og umboðsmaður hans eiga flug til Spánar í dag þar sem þeir munu ræða kaupverðið við forráðamenn Valencia.

Arsenal ætlar ekki bara að fá sér miðvörð til að þétta raðirnar vegna meiðsla Per Mertesacker heldur er Arsene Wenger einnig á höttunum eftir sóknarmanni. Þetta staðfesti hann á fréttamannafundi í gær.

Tilboði félagsins í franska framherjann Alexander Lacazzette var hafnað en nú halda enskir miðlar því fram að Arsenal ætli að gera Juventus tilboð í króatíska landsliðsframherjann Mario Mandzukic.

Arsenal tapaði baráttunni um Gonzalo Higuaín sem einmitt fór til Juventus en með komu hans þangað fækkar tækifærum Mandzukic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×