Íslenski boltinn

Aron Elís: Maður verður bara að taka þessu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Elís Þrándarson fór meiddur af velli í gær eftir ítrekuð brot Valsmanna á Víkingnum í leik liðanna í Pepsi-deildinni í gærkvöldi.

Miðjumaðurinn efnilegi var fluttur upp á sjúkrahús á meðan leik stóð, en Arnar Björnsson, íþróttafréttamaður Stöðvar 2, hitti Aron Elís heima hjá honum í dag og spurði fyrst hvernig heilsan væri.

„Hún er betri en á horfðist í gær. Það er mikil bólga, en ekkert brot. Hásinin er í ágætu standi þannig maður getur ekki verið annað en bjartsýnn,“ segir Aron Elís, en hefur hann spilað sinn síðasta leik fyrir Víking?

„Það verður að koma í ljós. Vonandi ekki. Vonandi næ ég að spila eitthvað í síðustu umferðunum.“

Mikill hiti skapaðist á samskiptamiðlum í gærkvöldi vegna framgöngu Valsmanna og þá fékk þjálfari Hlíðarendafélagsins að heyra það frá stjórnar- og stuðningsmönnum Víkings. Sjálfur er Aron Elís rólegur yfir þessu öllu saman og ber engan kala til Valsliðsins.

„Nei, engan veginn. Ég ásaka þá ekki neitt um að hafa reynt að meiða mig í gær. Maður verður bara að taka þessu. Ef maður ætlar að reyna að fara framhjá mönnum býður það stundum upp á að maður verði tæklaður.“

Aron Elís stefnir í atvinnumennsku eftir tímabilið, en hann veit ekki hvert hann fer.

„Það verður bara að koma í ljós eftir tímabilið. Það eru einhverjar þreyfingar í gangi, en ég reyni sem minnst pæla í því á meðan tímabilið er enn í gangi hérna heima.“

Norska úrvalsdeildarfélagið Haugesund hefur tvívegis boðið í Aron á skömmum tíma og honum líst ágætlega á að byrja í Noregi.

„Ég held það sé bara fínt að byrja í skandinavíu og taka ekki of stórt skref. Það hafa margir Íslendingar sem byrja þar náð lengra.“

Viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Ólafur: Hefði viljað sjá tvo Valsara fara út af

Ólafur Þórðarson þjálfari Víkings var allt annað en sáttur við þá meðferð sem Aron Elís Þrándarson fékk hjá Valsmönnum í 1-1 jafntefli liðanna í kvöld í Pepsí deild karla í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×