Fótbolti

Aron Einar: Við förum óhræddir í leikina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Mynd/Twitter
„Þetta er bara fínt. Verðum að vera klárir þegar að þessu kemur,“ segir landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson.

Aron Einar ræddi málin við Arnar Björnsson í hádegisfréttum á Bylgjunni þegar ljóst var að Ísland myndi mæta Króötum í umspili um laust sæti á HM í Brasilíu næsta sumar.

Fyrri leikurinn fer fram á Laugardalsvelli föstudaginn 15. nóvember og sá síðari fjórum dögum síðar. Aron segir bæði kosti og galla við það að spila fyrri leikinn á heimavelli.

„Þetta er jákvætt og neikvætt. Fínt að byrja úti en líka gott að geta undirbúið sig heima eins og við gerðum fyrir Kýpurleikinn. Við fengum góða daga heima til að undirbúa okkur. Það eru kostir og gallar við þetta,“ segir Aron Einar.

„Við verðum bara að byrja vel og sjá hvað gerist.“

Króatar hafa á að skipa sterku liði. Þeir sitja í 18. sæti heimslistans en þeirra skærasta stjarna er líklega Luka Modric hjá Real Madrid.

„Maður sér það að þetta eru leikmenn í toppklassa. En það eru leikmenn í toppklassa í öllum þessum liðum. Þetta snýst allt um hvernig við spilum. Við förum í leikinn óhræddir og gerum okkar besta. Sjáum hvað gerist.“

Aron Einar er klár á því að Ísland eigi möguleika.

“Það þýðir ekki að segja neitt annað. Við erum búnir að spila vel og síðustu leikir hafa verið góðir. Þótt Noregsleikurinn hafi ekki verið frábærlega spilaður vorum við skipulagðir og gerðum það sem þurfti að gera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×