Innlent

Árni Páll: Gjaldeyrishöft eru hörmuleg

Gjaldeyrishöft eru hörmuleg, það sést skýrar með hverjum degi sem líður. Enginn stjórnmálaflokkur hefur sérstaka skýra sýn um lausn á þeim vanda sem gjaldeyrishöftin skapa. Þetta segir fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra.

Hert gjaldeyrishöft, meint brot Samherja á gjaldeyrislöggjöfinni og misheppnað gjaldeyrisútboð Seðlabankans nú nýlega eru atburðir sem kalla á endurmat á þeirri umgjörð sem við höfum búið íslensku atvinnulífi með gjaldeyrishöftum. Þetta segir Árni Páll Árnason, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

Í greinninni segir hann höftin valda ómældum skaða. Meðal annars sé ýmislegt sem bendi til þráláta verðbólgu megi að einhverju leyti rekja til þess að innflutningsfyrirtæki séu farin að safna gjaldeyriseign erlendis. Útflutningsfyrirtæki geta líka farið í kringum höftin með viðskiptum við dótturfyrirtæki erlendis. Höft skaði þannig almennt viðskiptasiðferði.

Á sama tíma séu hefðbundin innri verðlagning milli veiða og vinnslu orðin glæpur vegna gjaldeyrishaftanna.Áhyggjuefni sé að höftin séu farin að breyta þeim forsendum sem efnahagslífið hefur unnið eftir áratugum saman.

Hann segir reynslu allra þjóða þá að það sé óframkvæmanlegt að viðhalda höftum til lengdar nema með efnahagslegri einangrun og óbætanlegu tjóni á innviðum samfélagsins. Þess vegna séu höft aðeins nothæf sem skammtímaaðgerð rétt eins og árið 2008.

Lýkur Árni greinninni á því að vísa til orða Laxness um að enn megi treysta á að Íslendingar hunsi þau verkefni sem sem mestu skipta en eyði þess í stað orku sinni í tittlingaskít. Afkáranlegt sé að engin flokkur hafi skýra sýn um launs á haftavandanum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×