Viðskipti innlent

Arion banki selur í Reitum fyrir 2,8 milljarða króna

Hörður Ægisson skrifar
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, en fyrirtækið er stærsta fasteignafélag landsins, með markaðsvirði upp á 70 milljarða.
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, en fyrirtækið er stærsta fasteignafélag landsins, með markaðsvirði upp á 70 milljarða.
Arion banki seldi í morgun 30 milljónir hluta í Reitum fasteignafélagi, á genginu 93,9 krónur á hlut, fyrir samtals rúmlega 2,8 milljarða króna.

Bankinn var fyrir viðskiptin fjórði stærsti hluthafi Reita með 6,85 prósenta hlut. Eftir viðskiptin í morgun, þar sem Arion banki seldi meira en helminginn ef bréfum sínum í félaginu, á hann um 20,7 milljónir hluta í Reitum, eða sem nemur um 2,8 prósenta hlut.

Kaupendur að bréfum bankans í Reitum voru, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, að stærstum hluta íslenskir lífeyrissjóðir. Stærstu hluthafar Reita í dag eru Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

Hlutabréfaverð Reita hefur hækkað um liðlega 0,5 prósent í viðskiptum í Kauphöllinni í morgun. Á síðustu tólf mánuðum hefur gengi bréfa fasteignafélagsins hækkað um ríflega 11 prósent. Markaðsvirði Reita nemur um 70 milljörðum króna, sem gerir félagið að því þriðja verðmætasta í Kauphöllinni – á eftir Marel og Icelandair.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×