Erlent

Árásarmaðurinn í Berlín skotinn til bana í Mílanó

Atli Ísleifsson skrifar
Anis Amri, sem grunaður er um að hafa ekið vörubíl inn á jólamarkað í Berlín á mánudag, var skotinn til bana í Mílanó á Ítalíu í nótt.

Innanríkisráðherra Ítalíu, Marco Minniti, staðfesti þetta á fréttamannafundi í morgun, en ítalskir fjölmiðlar höfðu áður greint frá málinu.

Ráðherrann greindi frá því að maður hafi verið skotinn til bana í úthverfi Mílanó-borgar, við Sesto San Giovanni lestarstöðina, um klukkan þrjú í nótt að staðartíma. Hann var stöðvaður af lögreglu við reglubundið eftirlit á Piazza I Maggio.

Skaut lögreglumann

Ítalskir fjölmiðlar segir að maðurinn eigi að hafa hrópað Allah Akbar, dregið fram skotvopn og skotið á tvo lögreglumenn. Annar þeirra var skotinn í bringuna en lögreglumennirnir eiga þá að hafa skotið Amri til bana.

Lögreglumaðurinn, Christian Movio, sem var skotinn á að hafa starfað í lögreglunni um níu mánaða skeið, en hann komst lífs af úr árásinni. Minneti þakkaði Movio sérstaklega fyrir.

Minniti segir engan vafa leika á hvort að um Amri sé að ræða. Maðurinn var ekki með skilríki í fórum sínum, en fingraför hafi staðfest að þar hafi Amri verið þarna að ferðinni. Fjölmiðlar greina frá því að Amri hafi ekið um Frakkland á leið sinni til Ítalíu, en miðar sem fundust í vösum Amri benda til þessa.

Ráðherrann sagði að Amri hafi verið fótgangandi þegar hann var stöðvaður í Mílanó, en ítalskir fjölmiðlar höfðu áður greint frá að hann hafi verið á bíl. Kannað verður hvort að skotvopnið sem fannst í fórum Amri hafi verið það sama og notað var í Berlín.

Deutsche Welle hefur rætt við bróður Amri sem segir fjölskylduna í áfalli og vilji ekki tjá sig um fréttir dagsins.

Tólf fórust, tugir slasaðir

Umfangsmikil leit hefur staðið yfir í Evrópu að hinum 24 ára Amri síðustu daga. Tólf manns fórust og tugir særðust í árásinni á jólamarkaðinn á Breitscheidplatz. Skilríki Amri og fingraför höfðu fundist í vörubílnum.

Myndskeið La Repubblica frá vettvangi í nótt.

Amri hafði tengsl við Ítalíu, en hann kom til landsins árið 2011 ásamt þúsundum annarra Túnisa eftir að hafa komið með bát frá norðurströnd Afríku. Hann fékk dóm og sat í fangelsi í þrjú og hálft ár á Ítalíu fyrir að hafa kveikt í móttökustöð fyrir flóttafólk, hafa haft í hótunum fyrir lögreglu og fleiri brot.

Bræður Amri, Walid og Abdelkader, telja að Anis hafi hneigst til róttækni þegar hann sat í fangelsi, en hann afplánaði dóm sinn í sex ólíkum fangelsum á Sikiley.

Lögreglan í Berlín þakkar starfsbræðrum sínum á Ítalíu og óskar lögreglumanninum sem var skotinn skjóts baka. Kveðjan á Twitter er á ítölsku.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Bauðst til að fremja sjálfsvígsárás

Fjölskylda Anis Amri í Túnis er furðu lostin og hneyksluð á honum. Hann komst í kynni við öfgamenn þegar hann sat í fangelsi á Ítalíu. Yfirvöld í Túnis sendu ekki nauðsynlega pappíra til Þýskalands fyrr en á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×