Erlent

Áramótafagnaði í Brussel aflýst af ótta við hryðjuverk

Bjarki Ármannsson skrifar
Mikill viðbúnaður hefur verið í Belgíu eftir hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember.
Mikill viðbúnaður hefur verið í Belgíu eftir hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember. Vísir/EPA
Flugeldasýningu og hátíðarhöldum í tilefni áramótanna hefur verið aflýst í Brussel, höfuðborg Belgíu, vegna gruns um að hryðjuverkamenn hefðu nýtt sér tækifærið og gert árás.

Lögregla í Belgíu handtók tvo fyrr í vikunni sem grunaðir voru um að skipuleggja hryðjuverkaárásir um hátíðarnar.

Mikill viðbúnaður hefur verið í landinu eftir hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember þar sem 130 létu lífið en nokkrir Belgar eru meðal þeirra sem grunaðir eru um aðild að árásunum. Meðal þeirra er Adbelhamid Abaaoud, sem talinn er höfuðpaurinn.

Í samtali við belgísku ríkisfréttaveituna segir borgarstjóri Brussel að ákvörðun um að aflýsa hátíðahöldunum annað kvöld hafi verið tekin í samráði við innanríkisráðherra landsins. Ekki sé unnt að tryggja öryggi allra í svo miklu margmenni en í fyrra komu um hundrað þúsund manns saman í borginni til að fagna áramótunum.

Forsætisráðherra Belgíu, Charles Michel, segir jafnframt að ákvörðunin sé byggð á ákveðnum upplýsingum sem yfirvöldum hafi borist.

Brussel var í síðasta mánuði nær lokað að fullu í fjóra daga vegna gruns um að hryðjuverkaárás í líkingu við þær sem áttu sér stað í París væri í vændum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×