Sport

Annie Mist komin í toppsætið eftir frábæra þriðju grein

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Annie Mist Þórisdóttir.
Annie Mist Þórisdóttir. Vísir/Anton
Annie Mist Þórisdóttir er í fyrsta sæti í keppni í einstaklingsflokki á heimsleikunum í Crossfit eftir fyrsta daginn en þrjár fyrstu greinarnar fóru fram í dag. Björgvin Karl Guðmundsson er í 7. sæti í karlaflokki.

Annie Mist hækkaði sig í hverri grein á degi eitt, varð í 12. sæti í fyrstu grein, í 6. sæti í grein tvö og tók síðan hundrað stig fyrir þriðju greinina þar sem stelpurnar voru að gera ýmsar æfingar með þunga æfingabolta.

Annie Mist er þegar komin með 232 stig og er nú með tveimur stigum meira en Samantha Briggs sem var búin að vera á toppnum eftir fyrstu tvær greinarnar.

Það lítur því út fyrir að Annie Mist ætli að koma sterk til baka í ár eftir að hafa glímt við meiðsli undanfarið. Hún stefnir að því að vinna þessa keppni í þriðja sinn.

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er einnig á uppleið en hún náði fjórða besta tímanum í grein þrjú og er í fimmta sæti eftir fyrsta daginn. Ragnheiður Sara er með 206 stig eftir fyrstu þrjár greinarnar eða með 26 stigum minna en Annie Mist.

Katrín Tanja Davíðsdóttir byrjaði best af íslensku stelpunum í fyrstu grein en fékk síðan aðeins 4 stig fyrir grein tvö0. Hún kom aftur til baka í þriðju greininni þar sem hún endaði í fimmta sæti. Katrín Tanja er í 11. sætinu eftir fyrstu þrjár greinarnar.

Fjórða íslenska stelpan í úrslitum kvenna, Þuríður Erla Helgadóttir, er í 22. sæti en hún náði 16. besta tímanum í þriðju greininni.

Björgvin Karl náði sér vel á strik í þriðju grein og hafnaði í fimmta sæti. Hann er í sjöunda sæti yfir alla keppendur með 176 stig. Efstur í karlaflokki er Matthew Fraser með 228 stig.

Að neðan má sjá upptöku frá þriðju keppnisgrein þar sem tíu karlar og konur kepptu til skiptis. Annie og Sara Sigmundsdóttir fara af stað þegar klukkustund er liðin af uppptökunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×