Viðskipti innlent

Andri Þór Guðmundsson markaðsmaður ársins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðar Egils Skallagrímssonar.
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðar Egils Skallagrímssonar. Vísir/Anton

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðar Egils Skallagrímssonar, hefur verið kjörinn Markaðsmaður ársins 2015 hjá ÍMARK, samtökum markaðsfólks á Íslandi.

Verðlaunin eru veitt þeim einstaklingi, sem þykir hafa sýnt framúrskarandi árangur í markaðsstarfi á líðandi ári.

Í rökstuðningi dómnefndar segir að Andri Þór hafi náð miklum árangri með vörumerki Ölgerðar Egils Skallagrímssonar, sem flest hver hafa verið að auka hlutdeild á markaði þar sem samkeppni er hörð og framboð mikið.

Andri Þór hefur verið leiðandi í vöruþróun á drykkjarmarkaði og hefur hann meðal annars haft það að markmiði að stuðla að aukinni bjór- og vínmenningu meðal þjóðarinnar með stofnun Borg Brugghúss, þar sem að almenningi hefur gefist kostur á að fá fræðslu um íslenskan bjór, þar sem að gæði eru tekin umfram magn.

Í dómnefnd sátu Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka og formaður dómnefndar, Einar Einarsson framkvæmdastjóri Gallup, Andrés Jónsson eigandi og stofnandi Góðra samskipta, Bjarni Ólafsson ritstjóri Viðskiptablaðisins, Hjalti Jónsson framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar.

Auk þeirra sátu í dómnefnd Svanhildur Konráðsdóttir sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, Valgeir Magnússon framkvæmdastjóri Pipar/TBWA, Helga Valfells framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Dr. Friðrik Larsen lektor í HÍ og formaður stjórnar ÍMARK og Ásta Pétursdóttir framkvæmdastjóri ÍMARK.

Í fyrra tók stjórn ÍMARK þá ákvörðun að breyta formi keppninnar. Í stað þess að veita verðlaun fyrir bæði Markaðsmann og Markaðsfyrirtæki ársins eins og hefur verið gert undanfarin ár, verða eingöngu veitt verðlaun fyrir Markaðsmann ársins 2015.

Á næsta ári verður Markaðsfyrirtæki ársins valið og svo koll af kolli. Breyting þessi var gerð svo að fleiri fyrirtæki og einstaklingar geti komið til álita í hvert sinn sem verðlaunin eru veitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×