Innlent

Ánægð með Suðurnesjalöggur

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Guðrún Jónsdóttir. FRÉTTABLAÐIÐ/Valgarður
Guðrún Jónsdóttir. FRÉTTABLAÐIÐ/Valgarður
„Stígamótum líst vel á frumkvæði lögreglunnar á Suðurnesjum en þar ber þolandi heimilisofbeldis neyðarhnapp þar sem hætta er á að brotamaður brjóti nálgunarbann. „Frábært fordæmi,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talsmaður Stígamóta. Hún segir enn fremur að önnur lögregluumdæmi mættu taka kollega sína á Suðurnesjum sér til fyrirmyndar.

„Almennt líst okkur afar vel á það sem lögreglan á Suðurnesjum er að gera í ofbeldismálum,“ segir hún. „Þetta er einfaldlega sýnikennsla í því hvað hægt er að gera í íslenska kerfinu ef forgangsröðunin er rétt og ef viljinn er fyrir hendi.“ Þarna vísar Guðrún í tilraunaverkefni sem nefndist „Að halda glugganum opnum“ en það leiddi síðan til þess að Suðurnesjalögreglan breytti verklagi sínu í málum er varða heimilisofbeldi.

„Þau hafa verið frábær fyrirmynd sem síðan hefur orðið til þess, til dæmis, að borgarstjórn samþykkti einhljóða skömmu fyrir kosningar að gera átak í þessum málum. Á Suðurnesjum hafa þau líka verið að framfylgja lögum sem kveða á um það að ef ofbeldismenn haga sér ekki skikkanlega þá er þeim vísað af heimilum. Lög gera einmitt ráð fyrir því að svona sé þetta gert en því hefur bara ekki verið framfylgt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×