Erlent

Amnesty International saka lögreglu og her í Fiji um að beita pyntingum

Anton Egilsson skrifar
Amnesty International berst gegn mannréttindabrotum.
Amnesty International berst gegn mannréttindabrotum. Vísir/GETTY
Mannréttindasamtökin Amnesty International saka lögreglu og her í Fiji um pyntingar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu mannréttindasamtakanna. The Guardian greinir frá.

Í skýrslunni er ofbeldi, nauðgunum og jafnvel morðum af hendi lögreglu og hersins lýst í smáatriðum. Frá árinu 2006 hafa að minnsta kosti fimm aðilar sem hafa verið í haldi lögreglu eða hersins í landinu verið lamdir til dauða.

Meðal þeirra var hinn 19 ára gamli Sakiusa Rabaka en hann var laminn, beittur kynferðisofbeldi og neyddur til að framkvæma heræfingar í janúar árið 2007. Hann lést af áverkum sínum fjórum dögum síðar. Átta lögreglumenn og einn hermaður voru sakfelldir fyrir dauða Rabaka en var sleppt úr fangelsi minna en mánuði síðar.

Þá hefur lögreglan verið sökuð um að beita pyntingum við það að þvinga fram játningar frá þeim sem grunaðir eru um glæpi.  Meðal annars með þeim aðferðum að hella vatni í eyrun á þeim eða sleppa þungum steinum á bak þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×