Enski boltinn

Allt að gerast hjá Hull | Mason keyptur fyrir metfé

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Enska úrvalsdeildarliðið Hull City er loksins farið að láta til sín taka í leikmannakaupum, degi áður en félagskiptaglugginn lokar.

Fyrir daginn í dag var Hull ekki búið að kaupa neinn leikmann en í dag bættust tveir í þunnskipaðan hóp nýliðanna.

Hull greiddi Tottenham Hotspur metfé fyrir miðjumanninn Ryan Mason og keypti svo markvörðinn David Marshall frá Cardiff City. Þeir skrifuðu báðir undir þriggja ára samning við Hull.

Mason, sem er 25 ára, er uppalinn hjá Tottenham og lék 70 leiki fyrir aðallið félagsins. Hann var einnig lánaður til fjölda liða á meðan hann var á mála hjá Spurs. Mason hefur leikið einn A-landsleik fyrir England.

Marshall, sem er 31 árs, lék með Cardiff í sjö ár en hann hefur einnig leikið með Celtic og Norwich City á ferlinum. Þá á hann 24 A-landsleiki á bakinu fyrir Skotland.

Hull hefur komið öllum á óvart í upphafi tímabils og er komið með sex stig í ensku úrvalsdeildinni, þrátt fyrir þunnskipaðan leikmannahóp og vandamál utan vallar.

Steve Bruce hætti sem stjóri Hull skömmu áður en tímabilið hófst. Mike Phelan tók við starfi hans til bráðabirgða en óvíst er hvort hann verður stjóri liðsins til frambúðar.

Næsti leikur Hull í ensku úrvalsdeildinni er gegn Burnley á útivelli laugardaginn 10. september næstkomandi.

Uppfært 17:30

Hull gekk fyrir skemmstu frá kaupunum á framherjanum Will Keane frá Manchester United. Keane skrifaði undir þriggja ára samning við Hull.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×