Lífið

Allt á að vera fullkomið

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Hanna Ólafsdóttir gefur út bókina Fæðingarsögur, sem inniheldur 50 reynslusögur íslenskra kvenna.
Hanna Ólafsdóttir gefur út bókina Fæðingarsögur, sem inniheldur 50 reynslusögur íslenskra kvenna. Vísir/Pjétur
Hanna Ólafsdóttir, rithöfundur og fjölmiðlakona, gefur út bókina Fæðingarsögur, sem inniheldur 50 reynslusögur íslenskra kvenna. Bókin gefur lesandanum djúpa innsýn í fæðingarferlið þar sem sögurnar eru einlægar og alls ekki verið að fegra hlutina.

„Þetta hefur verið frábært ferli, Hugmyndin kom þegar ég var í fæðingarorlofi, Ég og vinkona mín, sem hafði eignast barn á svipuðum tíma, vorum að tala um fæðingar þar sem við ýttum barnavögnunum á undan okkur. Við höfðum gengið í gegnum gjörólíkar fæðingar. Hún endaði í bráðakeisara en ég hóstaði barninu nánast út í Hreiðrinu. Fæðingin sat enn þá í vinkonu minni nokkrum mánuðum síðar. Hún var þakklát fyrir að hafa fengið heilbrigt barn í hendurnar en hún hafði alltaf séð fyrir sér að eiga í vatni, hlustandi á lög sem hún hafði tekið sérstaklega saman fyrir fæðinguna, allt átti að fara náttúrulega fram, en svo varð ekki. Fæðingin var virkilega erfið og endaði með keisaraskurði. Vinkona mín sem er allra kvenna hraustust, upplifði sig sem hálfgerðan aumingja eftir þessa reynslu. Við bárum saman bækur okkar og ræddum af hverju fæðingarnar voru jafn ólíkar og raun bar vitni. Við komumst ekki að niðurstöðu nema þeirri að fæðingar eru óútreiknanlegar og stjórnast svo sannarlega ekki af fyrirfram tilbúnum fæðingaráætlunum,“ segir Hanna Ólafsdóttir rithöfundur spurð hvernig hugmyndin að bókinni hafi kviknað.



Bókin er væntanleg í verslanir um helgina og fjallar um fimmtíu ólíkar fæðingar sem endurspegla að miklu leyti hvernig nútímakona undirbýr sig fyrir fæðingu í dag hvaða væntingar konur hafa til fæðingarferlisins út frá samfélagslegum kröfum og fleiri utanaðkomandi aðstæðum

„Konur hafa oft ákveðna hugmynd um fæðingar. Konur eiga auðvitað að vera ofurhetjur. Þær eiga að stunda jóga, líta óaðfinnanlega út, stunda fjallgöngur og vinna 150 prósenta vinnu fram að fæðingardegi. Meðgangan á að ganga snurðulaust fyrir sig. Fæðingin má auðvitað ekki vera neitt minna en frábær. Í fáum orðum, allt á að vera fullkomið,“ segir Hanna.

Þó að fæðist mörg þúsund börn á hverjum degi, er hver fæðing einstök og upplifun kvennanna misjöfn.

„Hver kona á að fá að ráða hvernig hún hagar sinni fæðingu, eins mikið og hún getur stjórnað því. Það er ekkert verra að fara á sjúkrahús og fá mænudeyfingu, en oft þegar konur velja þá leið, er eins og þær þurfi að réttlæta það í samræðum og útskýra hvers vegna þær kusu það, það hefur ekkert með það að gera hvort konan sé sterk eða hugrökk,“ segir Hanna.

Bókin gefur lesandanum djúpa innsýn í fæðingarferlið

„Sögurnar eru einlægar, þar sem hver kona skrifar nákvæmlega um það hvernig fæðingin var, það er alls ekki verið að fegra hlutina. Tilgangurinn er bæði sá að deila reynslu með öðrum konum og bókin einnig hugsuð fyrir konur sem eru að ganga með fyrsta barn, því þarna færðu að lesa hvernig þetta er raunverulega á 50 mismundi vegu,“ segir Hanna og bætir við að hún sé mjög þakklát þeim konum sem sendu henni sögur því án þeirra væri engin bók.

 

 

Ágústa Magnúsdóttir, húsgagnahönnuður skrifaði sögunni Tuddinn en hún er ein af fimmtíu sögum í bókinni Fæðingarsögur.Vísir/Gustav Jóhannsson
Brot úr bókinni Fæðingasögur,  Tuddinn eftir Ágústu Magnúsdóttur.

"Mér fannst þetta erfitt. Ég man að ég var hissa á því hvað þetta var ótrúlega erfitt. Einhverra hluta vegna hafði mér tekist að telja mér trú um að þessi fæðing yrði svo miklu auðveldari. Að barnið hlyti hálfpartinn að koma bara siglandi út í tveimur til þremur rembingum og þetta yrði ekkert mál, því ég hefði átt barn áður.

Ég rembdist og rembdist en ekkert gerðist. Aftur rembdist ég af öllum lífs- og sálar kröftum en ekkert mjakaðist þetta áfram. Svo kom sársaukinn. Þá var hann loksins að koma. Fyrst kom kollurinn aðeins og svo aðeins meira áður en hann rann aftur til baka. Þetta var eins og að upplifa fyrri fæðingu aftur. Ég fann fyrir vonleysinu og uppgjöfinni þegar þetta gerðist, en líka léttinum því þá minnkaði spennan rétt á meðan og í smástund leið mér ekki eins og það væri verið að kljúfa mig í tvennt.

Þar sem ég hafði upplifað þetta áður vissi ég að þetta væri allt í lagi. Að líkaminn væri bara að gera leið fyrir barnið og að nú færi hann að koma. Ég rembdist aftur og höfuðið kom út. Þegar það var komið fannst mér erfitt að finna orku til að halda áfram og í næstu hríð gerðist lítið sem ekkert. Ég var róleg en ljósmæðrunum stóð einhverra hluta vegna ekki alveg á sama. Það var kölluð til önnur ljósmóðir til aðstoðar og hún endaði á að þrýsta á kúluna í næstu hríð til að hjálpa honum út. Ég man eftir því að hafa verið mjög hissa á þessu öllu saman og upplifði aftur að þetta væri bara „allt í einu“ búið. Ég var frekar pirruð á því að þurfa að standa í því að fæða fylgjuna og fannst sársaukafullt að láta sauma það litla sem þurfti að sauma. Á þessum tímapunkti fann ég í raun miklu meira fyrir þessum fylgifiskum fæðingarinnar en ég hafði í fyrri fæðingunni. Ég held að ég hafi bara viljað njóta þess að vera búin með þetta erfiði og fá að vera í friði með þessum litla tudda sem ég var komin með í hendurnar.

Tuddinn var mældur og ég fékk að vita að ég hefði fætt 19 marka barn. Hann mældist 52 sentimetrar og 4.728 grömm.

Fljótlega eftir fæðingu tókum við eftir því að hann andaði óvenju hratt. Barnalæknir kom og kíkti á hann og það var ákveðið að hann þyrfti að vera á vökudeild yfir nóttina. Þetta fannst mér sennilega það erfiðasta við þessa fæðingu. Ég hafði fætt risastórt og flott barn án verkjalyfja og það var sjúklega erfitt, en að sjá hann í glerkassa með hjartalínurit og snúrur tengdar við sig svona rétt eftir fæðingu og mega ekki halda á honum var það erfiðasta af öllu. Sem betur fer voru þetta bara nokkrar klukkustundir og ég mátti vera með hann í fanginu alla nóttina, sem ég og gerði. Við vorum tvær nætur á vökudeild, eða þar til hann fór að anda rólegar. Loks máttum við fara heim til stoltrar stóru systur sem hafði beðið og beðið eftir að fá litla bróður sinn úr maganum og heim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×