Handbolti

Alfreð og Geir stýrðu sínum liðum til sigurs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfreð stýrði Kiel til sigurs í kvöld.
Alfreð stýrði Kiel til sigurs í kvöld. Vísir/Getty
Kiel vann öruggan 12 marka sigur. 25-37, á Bietigheim í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Sigurinn var aldrei í hættu, en eftir tíu mínútna leik var staðan orðin 1-8, Kiel í vil. Tíu marka munur var á liðunum í leikhléi, 12-22, og lærisveinar Alfreðs Gíslasonar héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og unnu að lokum tólf marka sigur.

Joan Canellas, Dominik Klein og Marko Vujin skoruðu sex mörk hver fyrir Kiel. Aron Pálmarsson hafði hægt um sig og skoraði aðeins eitt mark. Julius Emrich var markahæstur í liði Bietigheim með sex mörk.

Magdeburg, sem Geir Sveinsson stýrir, vann gríðarlega sterkan sigur á Evrópumeisturum Flensburg á heimavelli með þriggja marka mun, 29-26.

Austurríkismaðurinn Robert Weber átti stórleik fyrir Magdeburg og skoraði átta mörk. Marko Bezjak kom næstur með fimm mörk. Anders Eggert, Jim Gottfridsson og Holger Glandorf voru markahæstir í liði Flensburg með fimm mörk hver.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×