Handbolti

Alfreð og félagar lögðu Rhein-Neckar Löwen í úrslitaleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfreð Gíslason hefur fengið sterka leikmenn til Kiel í sumar.
Alfreð Gíslason hefur fengið sterka leikmenn til Kiel í sumar. Vísir/Getty
Þýska handknattleiksliðið Kiel vann sigur á Klaus-Miesner æfingamótinu sem haldið var í Ilsenburg um helgina.

Kiel lék tvo leiki á laugardaginn. Fyrri leikurinn gegn Bergischer vannst með tveggja marka mun, 32-30. Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Kiel, en félagi hans í íslenska landsliðinu, Björgvin Páll Gústavsson, stóð í marki Bergischer fyrstu 19 mínútur leiksins.

Í seinni leiknum á laugardaginn unnu Alfreð Gíslason og lærisveinar hans danska liðið Skjern með fimm marka mun, 34-29. Aron skoraði fjögur mörk fyrir Kiel í leiknum.

Í úrslitaleiknum á sunnudaginn mætti Kiel Rhein-Neckar Löwen. Eftir jafnan leik framan af gáfu leikmenn Kiel í undir lok fyrri hálfleiks og þegar flautað var til leikhlés var staðan 14-8, Kiel í vil.

Löwen tókst að minnka muninn í eitt mark, 16-15, eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik, en þá tóku þýsku meistarnir aftur við sér. Þeir skoruðu sex mörk gegn einu Löwen-manna og unnu að lokum sex marka sigur, 29-23.

Marko Vujin var markahæstur í liði Kiel með fimm mörk, en Aron, Dominik Klein, Filip Jicha, Nicklas Ekberg og Steffen Weinhold komu næstir með fjögur mörk hver.

Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði tvö mörk fyrir Löwen.


Tengdar fréttir

Heiður að fá að aðstoða Alfreð

Alfreð Gíslason hefur aldrei verið mikið fyrir að deila ábyrgð með öðrum en nú hefur hann ákveðið að fá sér aðstoðarmann hjá Kiel.

Aron losnar ekki fyrr frá Kiel

Samkvæmt heimildum íþróttadeildar ganga samningaviðræður Kiel og Veszprém illa og lítur allt út fyrir að Aron muni leika með Kiel á næsta tímabili.

Kiel vann rússneska landsliðið

THW Kiel, lið þeirra Alfreðs Gíslasonar og Arons Pálmarssonar, mætti rússneska landsliðinu í æfingaleik á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×