Fótbolti

Alfreð: Þetta mark mun gefa mér mikið

Óskar Ófeigur Jónsson í Astana skrifar
Alfreð Finnbogason opnaði markareikning sinn í spænsku úrvalsdeildinni í síðasta leiknum sínum með Real Sociedad fyrir landsliðsferðina til Kasakstan og hann segir markið gera honum gott.

„Þetta legst mjög vel í mig. Þetta var bara annar landsleikur og það er alltaf gaman að fá að sjá eitthvað nýtt. Þetta er samt töluvert öðruvísi menning og land en maður er vanur. Leikurinn verður vonandi skemmtilegur," sagði Alfreð Finnbogason.

„Ég held að við þurfum aðallega að venjast tímanum því við höfum allir spilað margoft á gervigrasi og innanhúss sem guttar. Við þurfum því hugsa um að að ná góðum svefni og hvílast vel," sagði Alfreð. Hann fagnar því að vera aftur til móts við landsliðsfélagana.

„Það er alltaf gaman að koma í nýtt umhverfi og breyta aðeins til. Það er langt á milli landsleikjanna og það er mjög gaman að hitta félagana aftur," sagði Alfreð.

Alfreð skoraði þriðja mark Real Sociedad á móti Córdoba um síðustu helgi en markið hans kom stuttu eftir að hann kom inná sem varamaður undir lok leiksins.

„Það var mikill léttir og gott fyrir mig. Þetta mark mun gefa mér mikið. Ég get kannski spilað með meiri ró núna og vera ekki að vera aðeins að fókusera á það að skora. Nú get ég reynt að vera mikilvægur á þeim mínútum sem ég fær," sagði Alfreð en hann viðurkennir að það hefur ekki verið auðvelt fyrir hann að eyða mestum tíma á varamannabekknum hjá David Moyes.

„Það er aldrei auðvelt þegar þú ert ekki að spila og ég veit ekki um neinn metnaðarfullan fótboltamann sem er ánægður þegar hann er ekki að spila. Ég er engin undantekning á því. Maður fer í gegnum allan skalann, verður pirraður og ánægður og fer allan hringinn. Maður þarf bara að tækla þetta með jákvæðni því það er það eina sem virkar," sagði Alfreð.


Tengdar fréttir

Lars og Eiður ætla að enda ferilinn saman á EM

Lars Lagerbäck og Eiður Smári Guðjohnsen hafa talað saman um að enda saman glæsilega landsliðsferla sína á EM 2016 komist liðið þangað. Eiður Smári er kominn aftur inn í hópinn fyrir leik á móti Kasakstan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×