Handbolti

Alexander gæti verið búinn að spila sinn síðasta landsleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alexnder Petersson hefur átt magnaðan landsliðsferil.
Alexnder Petersson hefur átt magnaðan landsliðsferil. Vísir/Stefán
Alexander Petersson er ekki í leikmannahópi íslenska landsliðsins í handbolta sem mætir Portúgal í umspilsleikjum heima og að heiman um miðjan mánuðinn en í boði er farseðill á heimsmeistarakeppnina í Frakklandi í janúar á næsta ári.

Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari, sagði á blaðamannafundi HSÍ í dag þar sem hópurinn var tilkynntur að Alexander gæfi ekki kost á sér í þetta verkefni. „Hvort hann sé búinn að spila sinn síðasta landsleik veit ég ekki,“ sagði Geir um örvhentu skyttuna.

Geir sagðist hafa talað þrisvar sinnum við Alexander um verkefnið en á endanum ákvað hann að gefa ekki kost á sér. Aðspurður hvort um meiðsli væri að ræða eða aðrar ástæður svaraði Geir:

„Það hefur verið gríðarlegt álag á honum en ástæðurnar eru ýmsar. Ég skil ákvörðun hans þó ég sé henni ekki sammála,“ sagði Geir Sveinsson nokkuð svekktur með að geta ekki beitt Alexander í þessum mikilvægum leikjum. „Þið verðið bara að spyrja hann nánar út í ástæður þess að hann gefur ekki kost á sér,“ bætti Geir við.

Alexander hefur eins og undanfarin ár glímt við meiðsli á yfirstandandi leiktíð og verið nokkuð hvíldur hjá Rhein-Neckar Löwen sem stefnir hraðbyri að sínum fyrsta Þýskalandsmeistaratitli. Hann spilaði síðast landsleik gegn Króatíu á EM í Póllandi í janúar.

Alexander hefur á löngum ferli með landsliðinu spilað 173 leiki og skorað 694 mörk. Hann var bæði í silfurliðinu í Peking 2008 og bronsliðinu á EM í Austurríki 2010.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×