Enski boltinn

Alderweireld að semja við Tottenham í skugga deilna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Toby Alderweireld er eftirsóttur.
Toby Alderweireld er eftirsóttur. vísir/getty
Belgíski varnarmaðurinn Toby Alderweireld er að ganga í raðir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni, en Sky Sports segist hafa heimildir fyrir því að leikmaðurinn sé búinn að standast læknisskoðun.

Daniel Levy, stjórnarformaður Tottenham, eyddi síðustu viku í Madríd með kollegum sínum hjá Atlético og gekk frá kaupum á varnarmanninum.

Belginn var á láni hjá Southampton í ensku úrvalsdeildinni frá Atlético og stóð sig mjög vel, en Dýrlingarnir fengu 20 mörkum færri á sig en Tottenham.

Southampton telur Atlético vera að brjóta á sér, en Dýrlingarnir nýttu sér 6,8 milljóna punda forkaupsrétt sinn á leikmanninum og ætluðu sér að fá hann til frambúðar.

Það kostaði Atlético Madríd 1,5 milljón punda að kaupa Alderweireld út úr forkaupsréttinum og það gerði spænska félagið. Southampton vill þó meina að það hafi Atlético gert of seint.

Southampton hefur ekki gefist upp í baráttunni um Belgann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×