Viðskipti innlent

Ákvörðun tekin á næstu dögum um framtíð slitastjórnar Dróma

Lóa Pind Aldisardóttir skrifar
Ragnar Hall krefst þess að slitastjórninni verði vikið frá.
Ragnar Hall krefst þess að slitastjórninni verði vikið frá.
Héraðsdómur Reykjavíkur ætlar strax á næstu dögum að taka afstöðu til þess hvort Dróma, slitastjórn Frjálsa fjárfestingarbankans, verði vikið frá störfum.

Fréttastofa RÚV sagði frá því í gærkvöldi að Ragnar Hall hæstaréttarlögmaður krefðist þess að héraðsdómur viki slitastjórn Frjálsa fjárfestingarbankans frá störfum. Hann gagnrýndi vinnubrögð slitastjórnar harðlega og sagði hana halda fjölda skuldara í gíslingu. Krafan kemur vegna þess að nú hafa þrenn mánaðamót liðið án þess að slitastjórnin hafi sent endurútreikning á láni hjóna í Vesturbænum sem unnu mál gegn Dróma í Hæstarétti nú í febrúar. Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að Dróma hefði verið óheimilt að reikna seðlabankavexti aftur í tímann á ólögmætt gengislán hjónanna. Fréttastofa ræddi við Eggert Óskarsson, starfandi dómsstjóra hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, í morgun. Hann sagði að formlegt erindi hefði borist frá Ragnari Hall um að víkja slitastjórninni.

Styrr hefur staðið um störf slitastjórnar Frjálsa fjárfestingarbankans undanfarin misseri en þar situr sama fólk og skipar slitastjórn SPRON og hlutafélagið Dróma, eða lögmennirnir Hlynur Jónsson, Hildur Sólveig Pétursdóttir og Jóhann Pétursson.

Boðað verður til fundar með slitastjórninni og Ragnari Hall á næstu dögum hjá Héraðsdómi. Ef ekki næst samkomulag á þeim fundi er tvennt í stöðunni, annaðhvort úrskurðar Héraðsdómur að stjórnin fái tiltekinn frest til að bæta úr vinnubrögðum sínum - eða víkur slitastjórn Frjálsa umsvifalaust frá störfum. Þess má geta að þetta er ekki í fyrsta skipti sem krafa um að víkja slitastjórn Frjálsa frá störfum, slík krafa barst í janúar 2010 en þá var ekki orðið við henni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×