Innlent

Ákærðir fyrir fjölda lögbrota: Lífsýni kom upp um mennina

Húsráðandi segir þjófana hafa tekið sopa af áfengisflösku sinni, sem lögregla hafi tekið til rannsóknar og í kjölfarið upplýst málið.
Húsráðandi segir þjófana hafa tekið sopa af áfengisflösku sinni, sem lögregla hafi tekið til rannsóknar og í kjölfarið upplýst málið. vísir/getty
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákært tvo karlmenn á fertugsaldri fyrir fjölda lögbrota, þar á meðal tvö innbrot, þjófnað, vopnalagabrot, og fíkniefna- og umferðarlagabrot. Mál þeirra verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness á morgun.

Fengu sér vínsopa

Innbrot mannanna tveggja áttu sér stað á Suðurnesjum í ágúst árið 2013. Höfðu þeir á brott með sér sjónvörp, tölvur, myndavélar og önnur raftæki, ásamt fatnaði, verkfærum og fleiru. Húsráðandi sem Vísir ræddi við í kvöld sagði lífsýni hafa komið upp um mennina. Þeir hafi drukkið úr áfengisflösku sem hafi verið inni í vínskáp og lögregla tekið með sér til rannsóknar. Áætlað verðmæti stolnu munanna nemur hundruðum þúsunda.

Sjá einnig: Skelfileg heimkoma eftir Þjóðhátíð

Fimmtíu kannabisplöntur og heimagerð kylfa

Þá er annar mannanna jafnframt ákærður fyrir brot á vopnalögum árið 2013, en á heimili hans fannst heimagerð kylfa, öxi, handjárn og hnífur. Sá er jafnframt ákærður fyrir fíkniefnalagabrot því við húsleit fundust fimmtíu kannabisplöntur sem og tæp þrjú grömm af amfetamíni.

Honum er jafnframt gefið að sök að hafa í janúar 2014 ekið undir áhrifum áfengis- og fíkniefna. Í ákærunni segir að þegar lögregla hafi stöðvað manninn við aksturinn hafi hann fleygt út bakpoka með innihélt tæp þrjátíu grömm af amfetamíni. Í bíl hans fannst kylfa, járnrör og teygjubyssa. Maðurinn var í kjölfarið sviptur ökuréttindum ævilangt. Nokkrum dögum síðar var hann aftur stöðvaður af lögreglu og mældist amfetamín í blóði hans og kannabis fannst í bíl hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×