Erlent

Áhafnarmeðlimir drýgðu hetjudáðir

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AP
Farþegar ferjunnar sem sökk við strendur Suður-Kóreu segja hetjusögur af áhafnarmeðlimum ferjunnar þrátt fyrir að mörgum þeirra, þá helst skipstjóranum er úthúðað í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

„Síðustu orð hans voru: Ég er á leiðinni að bjarga börnunum,“ sagði Ahn So-hyun. Eiginmaður hennar er einn af þeim áhafnarmeðlimum sem ekki hafa fundist enn. Hann ræddi við konu sína í síma áður þegar hann var á leiðinni til að hjálpa 323 skólakrökkum sem voru um borð í ferjunni.

AP fréttaveitan segir frá þessu.

Koo Bon-hee sagði blaðamönnum frá því að fjórir úr áhöfninni, tveir menn og tvær konur, hafi gefið farþegum sem ekki voru með björgunarvesti, vestin sín.

Meðal fyrstu líkanna sem fundust í ferjunni var hinn 22 ára, Park Ji-young, en þegar síðast sást til hennar var hún að hjálpa skólakrökkum frá borði, án þess að vera í vesti. Hún mun hafa sagt við farþega að áhafnarmeðlimir­ færu síðastir frá borði og hún kæmi í land þegar hún væri búin að hjálpa öllum.

Oh Yong-seok, 57 ára stýrimaður, sagði að hann og fjórir aðrir úr áhöfninni hefðu brotið rúður á ferjunni utan frá og dregið sex farþega úr klefum sínum. Hann sagði annan úr áhöfninni, sem er í haldi yfirvalda, hafa notað þekkingu sína af skipinu til að leiðbeina björgunarmönnum að fólki. Að hann og samstarfsmenn sínir hafi hjálpað við björgun allt þar til embættismaður úr Strandgæslunni sagði þeim að fara í land.

„Við lögðum hart að okkur, en fjölmiðlar tala ekki um það,“ sagði Oh með tárin í augunum á sjúkrahúsi. „Þessi í stað segja þeir að öll áhöfnin hafi flúið í land.“

Tala látinna er komin yfir hundrað, en hún gæti farið yfir 300, því enn er um 200 manns saknað. Alls voru 476 um borð í ferjunni.

Búið er að handtaka skipstjóra ferjunnar og tvo aðra starfsmenn, sem sakaðir eru um vanrækslu og að yfirgefa fólk í neyð. Þá eru sex aðrir starfsmenn í haldi yfirvalda, en þeir hafa ekki verið handteknir eða ákærðir.

Skipstjórinn, Lee Joon-seok sagði farþegum ferjunnar að halda til í klefum sínum þegar slagsíða kom á skipið. Eftir meira en hálftíma gaf hann skipun um að yfirgefa skipið og mun hann hafa farið með einum af fyrstu bátunum í land.

Á þessari mynd frá strandgæslu Suður-Kóru sést þegar ferjan sökk.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×