Innlent

Ágóði af uppistandi á Húrra rennur til neyðarsöfnunar Unicef

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tveir sýrlenskir drengir í flóttamannabúðum nærri borginni Aleppo í Sýrlandi.
Tveir sýrlenskir drengir í flóttamannabúðum nærri borginni Aleppo í Sýrlandi. vísir/getty
Uppistandskvöld verður á skemmtistaðnum Húrra í kvöld en allur aðgangseyririnn sem kemur í kassann mun renna til neyðarsöfnunar Unicef vegna aðgerða samtakanna í Sýrlandi og nágrannalöndum.

Eins og kunnugt er hafa milljónir Sýrlendinga þurft að flýja heimili sín vegna borgarastyrjaldarinnar sem þar hefur geisað í fjögur og hálft ár.

„Það eru alls 5,5 milljónir barna á flótta,“ segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi Unicef, í samtali við Vísi. Þar af eru tvær milljónir á flótta í nágrannaríkjum Sýrlands en 3,5 milljónir barna eru á vergangi innan Sýrlands.

Neyðarsöfnun Unicef hefur verið í gangi með hléum frá árinu 2012. Síðastliðinn föstudag fór fólk að hafa samband við samtökin og spyrjast fyrir um hvað væri hægt að gera til að hjálpa sýrlensku flóttafólki strax, en eins og kunnugt er hefur átt sér stað mikil vitundarvakning á meðal Íslendinga síðustu daga um aðstæður flóttafólks.

„Bara síðan á föstudaginn hafa komið inn rúmar fjórar milljónir,“ segir Sigríður. Hún segir margar leiðir færar svo aðstoða megi flóttafólk og að styrkja aðgerðir Unicef sé ein þeirra. Samtökin séu þakklát öllum þeim sem leggi þeim lið en grínistarnir sem koma fram á Húrra í kvöld höfðu frumkvæði að því að láta aðgangseyri kvöldsins renna til Unicef.

„Það er gaman að sjá hvað fólk er að bregðast mikið við því það er hægt að gera svo margt, bæði með því að bjóða flóttafólk velkomið hingað til og styrkja þær aðgerðir sem eru í gangi úti. Það er auðvitað mikilvægt að gera bæði.“

Uppistandið á Húrra hefst klukkan 21 í kvöld, það kostar 1000 krónur inn og þeir sem fram koma eru Andri Ívars, Bylgja Babýlóns, Hugleikur Dagsson, Ragnar Hansson, Snjólaug Lúðvíks og Þórdís Nadia.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×