Erlent

Afnema umdeilda lagagrein um nauðganir

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Aðgerðarsinnar í kvenréttindasamtökunum NGO Abaad klæddust brúðarkjólum og mótmæltu löggjöfinni í miðbæ höfuðborgarinnar í Lebanon 6. desember 2016. Þær uppskera í dag árangur erfiðis síns.
Aðgerðarsinnar í kvenréttindasamtökunum NGO Abaad klæddust brúðarkjólum og mótmæltu löggjöfinni í miðbæ höfuðborgarinnar í Lebanon 6. desember 2016. Þær uppskera í dag árangur erfiðis síns. Vísir/afp
Líbanska þingið hefur afnumið umdeild lög sem kveða á um að nauðgari verði leystur undan sök gangi hann í hjónaband með fórnarlambi sínu. Kvenréttindafélög tala ýmist um afnám laganna sem annars vegar sigur sæmdarinnar fyrir líbanskar konur og hins vegar hálfan sigur vegna þess að fleiri sambærilegar lagagreinar séu í gildi í refsilöggjöf landsins. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

Baráttuhópar fyrir réttindum og frelsi kvenna hafa löngum fordæmt lögin og hefur þess verið krafist að umrædd lagagrein númer 522 í hegningarlöggjöfinni verði felld úr gildi.

Kvenréttindafélagið Abaad sagði ógildingu laganna til marks um sigur sæmdarinnar fyrir líbanskar konur og vilja meðlimir færa þakkir til þingmanna fyrir að standa vörð um vernd kvenna gegn ofbeldi af öllum toga.

Á sama tíma er kvenréttindafélagið Kafa á öndverðum meiði því félagsmenn segja að með afnámi lagagreinarinnar sé einungis hálfur sigur unninn. Félagsmenn segja að framhald sé á lagagrein 522 í núgildandi refsilöggjöf númer 505 og 518.

Jean Oghassabian, ráðherra yfir málefnum kvenna, skrifaði á samskiptamiðlinum Twitter þar sem hann sagðist vera ánægður með að tekist hefði að afnema lagagrein 522 en að hann hefði einnig viljað fella úr gildi greinar 505 og 518. Það sé aldrei réttlætanlegt að heimila undanþágur refsinga fyrir nauðgun.

Gjörningurinn vakti óhug meðal vegfarenda en 31 kjóll hékk í snörum meðfram strandlengjunni í Beirút til að vekja athygli á nauðsyn þess að fella lagagrein 522 úr gildi.Vísir/afp


Lögin eru felld úr gildi eftir röð mótmæla í Beirút og víða um heim. Eftirminnilegur mótmælagjörningur var framinn á strandlengjunni í Beirút en þar hékk 31 brúðarkjóll í snörum til að verkja athygli á grimmd og ósanngirni lagagreinarinnar. 

Rithna Begum, baráttukona fyrir auknum rétti kvenna hjá Human Rights Watch-samtökunum, sagði lögin vera framlengingu á glæpnum sem þolendur nauðgana verða fyrir: 

„Gildandi lög heimila áframhaldandi árás á þolendur nauðgana í nafni „heiðurs“ með því að þvinga konur í hjónaband með kvalara sínum.“

Baráttuhópar fyrir réttindum kvenna uppskera nú árangur erfiðis síns því í dag heyrir greinin sögunni til í Líbanon.

Með því að smella hér er hægt að sjá myndskeið frá fréttaveitunni AFP um mótmælagjörninginn áhrifamikla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×