Fastir pennar

Afneitun RÚV

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar
RÚV skýrslan er tímabært innlegg í umfjöllun um framtíð fjölmiðla á Íslandi. Farið er yfir stöðuna eins og hún blasir við nefndarfólki og reynt að rýna í ástæður fyrir bágri fjárhagsstöðu RÚV.

Viðbrögð úr Efstaleiti hafa verið fyrirsjáanleg. Svo virðist sem samanburður á rekstri RÚV og fréttastofu 365 hafi farið sérstaklega fyrir brjóstið á stjórn og starfsfólki. Útvarpsstjórinn gekk meira að segja svo langt að draga í efa samanburðartölur úr rekstri 365 miðla, en komst þó að þeirri niðurstöðu að í raun skipti litlu hvort tölurnar væru raunsannar eða ekki því „margoft hafi komið fram að slíkur samanburður sé illmögulegur vegna ólíks eðlis almannaþjónustumiðla og einkamiðla“. Ekki var tekið fram hvar þetta hefur komið fram eða hver hefur fært óyggjandi sönnur á það að samanburður sem þessi sé út úr kú.

Niðurstaða skýrslunnar er sú að RÚV glímir við rekstrarvanda sem ekki sér fyrir endann á. Félagið fékk á síðasta ári tæplega 3,4 milljarða í forgjöf í formi útvarpsgjalds, og viðbótartekjur upp á ríflega 2 milljarða, einkum vegna auglýsingasölu þar sem RÚV keppir við einkamiðla, einn ríkismiðla á Norðurlöndum.

Lögformleg staða RÚV tryggir félaginu því 5,4 milljarða árlegt forskot á markaði. Samt er reksturinn þungur. Félagið hefur tapað ríflega 800 milljónum frá 2007. Samt starfa enn helmingi fleiri fréttamenn hjá RÚV en 365 miðlum. Fjöldi stöðugilda í samanburðarhæfum rekstri er ríflega tvöfaldur. RÚV notar næstum þrefalt fleiri fermetra undir starfsemina, þrátt fyrir að hjá 365 miðlum starfi fleiri þegar allt er talið. Kannski er samanburður ekki sanngjarn, en varla skýrir „almannaþjónustuhlutverkið“ allan muninn.

Niðurstaða skýrsluhöfunda er að starfsemi RÚV beri sig ekki óbreytt. Félagið starfar með takmarkaðri ábyrgð að nafninu til en ríkið lagði félaginu til 2 milljarða aukalega á árunum 2007 til 2009. Aftur þarf aukaframlag í ár. Þegar niðurskurðarplön stjórnenda RÚV eru skoðuð er vart raunhæft að þetta breytist í náinni framtíð. Lagt er til að útvarpsgjald hækki, að ríkið taki yfir skuldabréf við LSR og að kláruð verði sala á lóðarrétti í Efstaleiti. Ekkert af þessu er í hendi, og í engu felst framtíðarlausn. Salan á lóðarréttinum telst til einskiptishagnaðar sem í besta falli veitir gálgafrest til að taka til í undirliggjandi rekstri.

Stundum er sagt að stærsti gallinn á ríkisrekstri sé sá að hluthafaaðhald vanti. Með öðrum orðum: Stjórnvöld sem fara með almannafé eru ekki líkleg til að sjá um eign sína með sömu ástríðu og eigandi sem á allt sitt undir. Fimmtán ára óuppsegjanlegur samningur um úrelta dreifiveitu rennir stoðum undir þessar kenningar.

RÚV-nefndin svokallaða var skipuð af réttkjörnum stjórnvöldum til að rýna í rekstur RÚV. Að endingu fer sú vinna fram í umboði eigenda RÚV – fólksins í landinu.

Viðbrögð RÚV-liða benda til þess að forsvarsmenn RÚV skorti auðmýkt gagnvart hluthöfum sínum. Það að benda á augljósa galla í starfseminni kallast ekki pólitík, heldur aðhald og á að heita sjálfsagt mál.






×