Lífið

Ætlar ekki að kveikja í sér en er ekki sáttur

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Selskópnum var refsað fyrir að reyna finna frelsið.
Selskópnum var refsað fyrir að reyna finna frelsið. Vísir/Pjetur

„Ég er ekkert að fara að kveikja í mér í Húsdýragarðinum en mér finnst þetta ákaflega lélegt. Þarna er hugrökk skepna búin að leggja mikið á sig fyrir frelsið og henni launað með því að senda hana í gin refa,“ segir Haukur Viðar Alfreðsson, textasmiður hjá auglýsingastofunni Brandenburg og selavinur með meiru. Hann stofnaði í gær Facebook-síðuna, Þyrmið lífi sprettharða selkópsins.

Kópnum, sem slapp úr Húsdýragarðinum aðfaranótt mánudags var slátrað í gær, þrátt fyrir að starfsmenn Fjölskyldu- og húsdýragarðsins hefðu sagt að hann fengi að lifa fram á haust og yrði þá notaður í fóður fyrir refi.

Facebook-síðan sem Haukur Viðar stofnaði, varð strax mjög vinsæl og hafði tæplega þúsund manns líkað við síðuna á fyrstu fimm klukkustundunum. „Þetta sýnir það og sannar að fólki er ekki sama og maður spyr sig hvort það megi ekki opna á þá umræðu að dýragarðar séu tímaskekkja,“ segir Haukur Viðar.

Haukur Viðar Alfreðsson

 „Ég fer ekki í Húsdýragarðinn, enda er ég með ofnæmi fyrir flestum dýrum, ég fór síðast í dýragarð í Þýskalandi árið 1992, mér fannst það gaman en dýrunum fannst það ekki, þó ég efist ekki um að það sé ágætlega hugsað um þau.“

Hilmar Össurarson, settur yfirdýrahirðir, segir að kópnum hafi verið lógað líkt og gert sé við alla þá kópa sem ekki eigi að halda. „Á haustin og seinni part sumars er öllum kópum lógað vegna plássleysis,“ segir Hilmar.

Haukur Viðar segist hingað til ekki hafa átt erindi í garðinn og að lógunin breyti engu um það. „Ég er með heiftarlegt dýraofnæmi og læt aðra um það að sniðganga garðinn af þessum ástæðum.“ 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×