Fótbolti

Ætlar að fá sér umboðsmann sem fyrst

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dagný fagnar sigrinum í Atlantahafsdeildinni á dögunum.
Dagný fagnar sigrinum í Atlantahafsdeildinni á dögunum.
Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona Íslands í knattspyrnu, hefur hug á því að spila sem atvinnumaður í Evrópu þegar skólagöngu hennar við Florida State University lýkur í desember. Dagný er á fjórða ári sínu í skólanum en skólalið hennar þykir til alls líklegt í úrslitakeppni NCAA keppninnar..

Dagný segist í samtali við Vísi ekki ætla að fara í „draft-ið“ í Bandaríkjunum að loknu tímabili. Hugurinn leiti til Evrópu og fyrstu löndin sem komi upp í kollinn séu Svíþjóð og Þýskaland. Ekkert sé hins vegar í hendi enda hún ekki með umboðsmann og þjálfarar hennar hjá skólaliðinu deili ekki með henni fyrirspurnum erlendra félaga að svo stöddu.

Dagný (til hægri) og Berglind Björg fagna sigri Seminoles í Atlantshafsdeidlinni á dögunum.
„Þeir vilja ekki að það trufli mig. Það pirrar mig svolítið,“ segir Dagný á léttum nótum. Hún er algjör lykilmaður í liði Seminoles sem mætir Northeastern University í 32-liða úrslitum NCAA í kvöld. Auk Dagnýjar leikur Eyjamærin Berglind Björg Þorvaldsdóttir með liðinu sem fór alla leið í úrslitaleik NCAA í fyrra þar sem liðið tapaði með minnsta mun.

Dagný, sem er 23 ára, hefur verið lykilmaður í íslenska landsliðinu undanfarin ár þrátt fyrir ungan aldur. Hún skoraði meðal annars sigurmark Íslands gegn Úkraínu í umspili um sæti í lokakeppni EM 2013. Þá tryggði hún Íslandi sömuleiðis sæti í átta liða úrslitum lokakeppninnar í Svíþjóð með skallamarki í 1-0 sigri á Hollandi. Hún hefur áður lýst því yfir að hún ætli langt í fótboltanum.

Dagný með nokkra af verðlaunagripum sínum eftir magnað tímabil. Hún getur enn landað þeim stóra, sigri í NCAA, en Seminoles hefur aldrei unnið þann titil.
Leikmenn í háskólaboltanum mega hvorki þiggja laun né vera með umboðsmenn á sínum snærum. Þegar tímabilinu og prófunum lýkur í desember og hávaxni miðjumaðurinn frá Hellu útskrifast segir hún að það verði líklega sitt fyrsta verk að finna sér umboðsmann. Aðspurð segist hún ætla að vanda valið í þeim efnum.

Viðurkenningar Dagnýjar á tímabilinu:

Í sigurliði Seminoles í Atlantshafsdeildinni (ACC)

Í sigurliði Seminoles í úrslitakeppni ACC (keppni fjögurra efstu liða)

Sóknarmaður ársins í ACC

Valin í úrvalslið ACC

Valin í úrvalslið úrslitakeppninnar í ACC

Besti leikmaður úrslitakeppninnar í ACC

Þá var Dagný verðlaunuð fyrir námsárangur sinn.


Tengdar fréttir

Vöknuðu við skilaboðin: „Dangerous Situation“

Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir eru nemendur við Florida State University þar sem byssumaður særði þrjá í nótt áður en hann var skotinn til bana af lögreglu á háskólasvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×