Innlent

Ætla ekki að una niðurstöðu um að ríkið eignist Fell

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sýslumannsembættið á Suðurlandi ætlar á næstu dögum að ganga frá kaupum ríkisins á jörðinni Felli í Suðursveit, sem nær yfir stóran hluta Jökulsárlóns. Hluthafar í félagi sem áður hafði fengið samþykkt tilboð í jörðina, segja tilboð ríkisins aftur á móti vera ólöglegt þar sem það hafi borist of seint. Farið verður með málið fyrir dómstóla.

Jörðin Fell í Suðursveit var fjórða nóvember síðastliðinn seld í nauðungarsölu á almennum markaði til að slíta sameign. Jörðin var seld til félagsins Fögrusala ehf og var kaupverðið rúmur einn og hálfur milljarður króna. Um er að ræða einn fjölsóttasta ferðamannastað landsins.

Fréttablaðið greinir frá því í dag að ákvörðun stjórnvalda um að nýta forkaupsréttinn hafi komið fram of seint. Þann þriðja janúar voru sextíu dagar síðan nauðungaruppboðið fór fram og því var fresturinn liðinn á þeim degi, en tilboð ríkisins barst níunda janúar.

Eru menn ósammála um hvort miða eigi við daginn sem kauptilboðið barst í jörðina, eða daginn sem kauptilboðið var samþykkt formlega hjá embætti Sýslumanns á Suðurlandi.

Anna Birna Þráinsdóttir, sýslumaður, sendi í kjölfar umfjöllunar um málið í dag frá sér fréttatilkynningu þar sem segir að ákvörðun fjármálaráðuneytisins um að kaupa jörðina hafi komið innan þess tíma sem ríkið hafði til umhugsunar. Kaupandinn, félagið Fögrusalir ehf, hafi samþykkt skilmála í kaupsamningi um að frestur ríkisins til að ganga inn í tilboðið hafi verið til tíunda janúar.

Hróbjartur Jónatansson, lögmaður lögmaður Fögrusala, vísar þessu alfarið á bug.

„Það mun liggja fyrir samkvæmt ákvörðun sýslumans í dag til okkar að hann hafi miðað við dagsetningu kaupsamningsins, sem var ellefti nóvember. Það liggur hins vegar skýrt fyrir samkvæmt náttúruverndarlögum að sextíu daga fresturinn byrjar að líða um leið og ríkinu berst tilboðið. Alveg óháð því hvenær kaupsamningurinn er gerður,“ segir hann.

Farið verður með málið fyrir dómstóla.

„Sýslumaðurinn á Suðurlandi hefur tilkynnt okkur það, reyndar í tölvupósti, að þeir hafi ákveðið að láta ríkið hafa þetta. Við munum að sjálfsögðu ekki una þeirri ákvörðun og bera hana undir dómstóla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×