Erlent

Aðskilnaðarsinnar fá sjálfsstjórn og sakaruppgjöf

Atli Ísleifsson skrifar
Rúmlega þrjú þúsund manns hafa látið lífið frá því að átök hófust í austurhluta Úkraínu í apríl síðastliðinn.
Rúmlega þrjú þúsund manns hafa látið lífið frá því að átök hófust í austurhluta Úkraínu í apríl síðastliðinn. Vísir/AFP
Héruð í austurhluta Úkraínu, sem aðskilnaðarsinnar ráða nú að stórum hluta yfir, hljóta sjálfstjórn og liðsmönnum aðskilnaðarsinna verður veitt almenn sakaruppgjöf samkvæmt nýjum lögum úkraínska þingsins sem samþykkt voru í morgun.

Ákvörðunin er í samræmi við vopnahléssamkomulagið frá 5. september sem Petró Pórósjenkó Úkraínuforseti skrifaði undir.

Almenn sakaruppgjöf nær til uppreisnarmanna í Dónetsk og Luhansk-héraði, en ekki þeirra sem skutu niður MH17 vél malasíska flugfélagsins Malaysia Airlines.

Evrópuþingið og úkraínska þingið samþykktu í dag að fullgilda nýjan tímamótasamning um samstarf milli Úkraínu og Evrópusambandsins. Viðræður við Rússa sem fram fóru í síðustu viku leiddu til þess að fríverslunarákvæði samkomulagsins mun ekki taka gildi fyrr en 2016.

Samkvæmt nýju lögunum verður aðskilnaðarsinnum á bandi Rússlandsstjórnar, sem enn eru í haldi úkraínskra yfirvalda, sleppt.

Aðskilnaðarsinnar sem ráða yfir stjórnarbyggingum í Dónetsk og Luhansk eiga samkvæmt samkomulaginu að yfirgefa þær, sleppa föngum og afhenda vopn sín.

Í frétt BBC segir að fjöldi aðskilnaðarsinna hafi hins vegar farið fram á að fá fullt sjálfstæði og stofna ríkið „Novorossiya“, sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur jafnframt minnst á í ræðum sínum.

Rúmlega þrjú þúsund manns hafa látið lífið frá því að átök hófust í austurhluta Úkraínu í apríl síðastliðnum. Þá hafa um 310 þúsund neyðst til að flýja heimili sín og eru á vergangi innan landamæra Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×