Viðskipti innlent

Aðhald í ríkisfjármálum nauðsynlegt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. vísir/anton brink
Staða ríkissjóðs er að ýmsu leyti ekki eins góð og hún lítur út fyrir að vera þar sem stórar gjaldfærslur eiga eftir að falla á ríkið á næstu árum. Þeirra á meðal eru ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar og skuldbindingar Íbúðalánasjóðs, en þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Í Hagsjánni kemur fram að staða ríkissjóðs sé mjög mismunandi eftir því hvort stöðugleikaframlög föllnu bankanna eru tekin með í reikninginn eða ekki. Þannig er nú gert ráð fyrir 6,8 milljarði afgangi í fjárlögum næsta árs en séu stöðugleikaframlögin með verður tekjuafgangur ríkissjóðs 2016 345 milljarðar króna.

Þó er á það bent í Hagsjánni að uppistaða stöðugleikaframlaganna eru eignir sem ekki er auðvelt að koma í verð á stuttum tíma. Þannig sé ekki gert ráð fyrir því að Íslandsbanki verði seldur á næsta ári en þó megi gera ráð fyrir auknum arðtekjum ríkissjóðs á næsta ári þar sem bankinn verði að fullu í eigu ríkisins.

Þá er einnig minnt á það í Hagsjá bankans að næstu fjárlög verða lögð fram í aðdraganda Alþingiskosninga sem verða vorið 2017:

„[...] sagan segir að við slíkar aðstæður losni jafnan um aðhald í opinberum fjármálum. Miðað við aðstæður í hagkerfinu í dag er mjög mikilvægt að ríkisfjármálunum sé biett þannig að þau séu í takti við peningamálastjórn Seðlabankans í baráttu við verðbólgu og þenslu,“ segir í Hagsjánni sem sjá má í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×