Innlent

Aðgerðum frestað og biðlistar lengjast

Heimir Már Pétursson skrifar
vísir/gva
Hátt í sjötíu aðgerðum hefur verið frestað undanfarna daga vegna verkfallsaðgerða lækna og í dag var meðal annars sjö hjartaaðgerðum frestað á Landsspítalanum. Yfirlæknir á lyflækningadeild segir að öllum neyðartilvikum hafi verið sinnt en ljóst sé að lengjast muni í öllum biðlistum í heilbrigðiskerfinu.

Um eitthundrað og sextíu lyflæknar hafa verið í verkfalli í dag og ná aðgerðirnar til sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Þórarinn Gíslason yfirlæknir er annar tveggja lyflækna sem hafa staðið vaktina á Landsspítalanum í dag.

„Það verður að segjast eins og er að það er ótrúlegt að standa í þessum aðstæðum og maður hefði eiginlega ekki trúa því að þetta væri að bresta á. Að það yrði látið gerast að heilbrigðisþjónustan yrði lömuð á þennan hátt og læknar gripu til þessarar nauðvarnar. Auðvitað hefur þetta gengið. Það ehfur enginn dáið en starfsemin hefur öll verið meira og minna í lamasessi og það er eingöngu verið að eiga við þá hluti sem eru bráðir,“ segir Þórarinn.

Frá því aðgerðir lækna hófust hefur hátt í hundrað aðgerðum verið frestað og í dag var m.a. fimm hjartaþræðingum og tveimur mjög sérhæfðum hjartaaðgerðum slegið á frest á Landsspítalanum.

„Við sinnum því sem er brátt. Sá sem kemur með lungnabólgu og sá sem kemur með blóðtappa í lunga fær sína greiningu og fær sína meðferð. En meira erum við ekki að gera,“ segir Þórarinn.

Þannig að þið getið heldur ekki útskrifað fólk á meðan þetta varir?

„Við reynum að koma þeim heim sem frískastir eru en við stöndum ekki að útskriftunum eins og við vildum standa að þeim,“ segir Þórarinn.

Þá bætist þetta ástand ofan á lokun á aðallyflækningadeildar spítalans sem hafi verið lokuð í á þriðju viku vegna spítalasýkingar.

„Núna er sá tími ársins sem er hvað mikilvægastur fyrir hefðbundna starfsemi okkar; næturmælingar, greina fólk með svefntruflanir  og meðhöndla það. Það hefur engin einasta slík rannsókn farið fram núna í þrjár vikur út af þessum þrengslum sem skapast A7 deildin lokaðist,“ segir Þórarinn. Ástandið sé eins og að bæta heilli jólahelgi inn í vikuna.

Þórarinn er lungna- og öndunarfærasérfræðingur og þessi staða hefur áhrif á hans sjúklinga.

„Þrátt fyrir allan niðurskurð hafði okkur gengið talsvert að ná niður helstu biðlistum. En nú hafa þeir snarvaxið aftur og við erum að horfa upp á að á annað hundrað manns hafa beðið í yfir þrjá mánuði eftir greiningu og svo tekur ný bið við eftir meðferð. Svona á þetta ekki að vera,“ segir Þórarinn Gíslason yfirlæknir lyflækningadeildar Landsspítalans í Fossvogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×