Skoðun

Að fá að drekka sig í hel

Ögmundur bjarnason skrifar
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um sölu áfengis í mjólkurbúðum sem vonir standa til að loks verði að lögum í landinu. Þessu fagna allir frjálshuga menn og telja mikil þjóðþrif. Gildir þá einu þótt öll skynsamleg rök hnígi gegn slíku fyrirkomulagi og landlæknir biðji guðina að forða þingheimi frá þessu ráði. Réttlætismál og sjálfsögð mannréttindi er að geta keypt sér („verzlað“) hvítvín með humrinum án milligöngu ríkisvaldsins. Að meina mönnum frjáls viðskipti með áfengi, jafnvel þótt ístöðulítið fólk kunni illa með það að fara, má heita að stappi nærri því ofbeldi að skylda menn, sem ekki bera til þess sérstaka löngun, að greiða skatt af tekjum sínum. Eða þeim yfirgangi kommúnista að beita neyslusköttum til að draga úr sykuráti barna.

Hlýtur þá að liggja næst fyrir að ráðast gegn þeirri blindu forræðishyggju að takmarka áfengiskaup við aldur neytenda, þvert á eftirspurn og kröfur markaðarins. Heimurinn er jú fullur af peningum og allskonar og fásinna að láta það dragast að drekka þau vín sem hægt er að drekka strax. Eins og skáldið sagði sem minntist skóladaganna með hryggð yfir því að „sumir sóuðu æsku sinni í nám á meðan aðrir vörðu henni í vín“. Í þessum skóla sem sum okkar villtust í síðar minnir mig að hafi staðið á fornum bókum að ljúft væri og dýrðlegt að deyja fyrir föðurlandið. Reynsla vestrænna þjóða af því að einkavæða áfengissölu er á eina leið: áfengisneysla eykst með tilheyrandi aukningu á áfengistengdu heilsutjóni og samfélagsböli. En skítt veri með það. Við skulum vera frjálsir menn í frjálsu landi. Og frjálsir þess að drekka okkur í hel. Það er dýrðlegt og dásamlegt:

Þær endalyktir öllum kunnar

ég einna dýrðlegastar tel

undir fána frjálshyggjunnar

að fá að drekka sig í hel.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Sjá meira


×