Innlent

900 milljóna króna hagræðing í kortunum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Skuldastaða Hafnarfjarðar kallar á mikla hagræðingu.
Skuldastaða Hafnarfjarðar kallar á mikla hagræðingu. Fréttablaðið/Daníel
Hafnarfjarðarbær áætlar að ná um 900 milljón króna hagræðingu á ári ef bærinn fylgir hagræðingartillögum sem ráðgjafarfyrirtækin Capacent og R3 unnu fyrir bæinn.

Skýrslan var unnin eftir að bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti að vinna úttekt á rekstri bæjarins í fyrra. Þar kemur fram að framlegð til rekstrar sé of lág til að greiða niður skuldir en staða bæjarsjóðs Hafnarfjarðar þykir alvarleg og skuldahlutfall yfir viðmiðum um skuldahlutfall sveitarfélaga.

Meðal hagræðingaraðgerða eru breytingar á störfum bæjarins en 28 stöðugildi verða lögð niður. Fjórtán einstaklingum sem gegna þessum stöðum í dag verður boðin tilfærsla í starfi og fjórtán boðinn starfslokasamningur.

Meðal þeirra stöðugilda sem lagt er til að lögð verði niður eru stöðugildi á skrifstofu bæjarstjóra sem lögð yrðu niður í núverandi mynd. Þá verða störf íþróttafulltrúa og forvarnar- og æskulýðsfulltrúa sameinuð og starf sviðsstjóra skipulags- og byggingarstjóra lagt niður svo eitthvað sé nefnt.

Þá er ætlast til að ná fram umtalsverðri hagræðingu með breytingum á reiknilíkönum vegna úthlutunar í grunn- og leikskóla auk þess að taka upp aðgangseyri í Hafnarborg og í Byggðasafn Hafnarfjarðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×