Innlent

50.000 manns hafa skrifað undir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tæplega 21% kosningabærra manna hafa nú skrifað undir áskorunina
Tæplega 21% kosningabærra manna hafa nú skrifað undir áskorunina
Rúmlega 50 þúsund manns eða tæplega 21%  kosningabærra manna hafa nú skrifað undir á Þjóð.is.

Með undirskrift sinni skorar fólk stjórnvöld að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort aðildarviðaræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram.

Jón Steindór Valdimarsson og félagar hjá Já Ísland munu afhenda undirskriftirnar þinginu innan tíðar.

„Þá væntanlega forseta þingsins sem fulltrúa þess. Áskorunin beinist að þinginu en ekki ríkisstjórninni, enda teljum við þetta mál þjóðarinnar fyrst og fremst og svo þingsins. Við erum ekki alveg búnir að tímasetja þetta. Fer eftir því hvernig mál þróast en ég reikna með því að við komum þessu til þingsins þegar utanríkismálanefnd er komin af stað í sinni umfjöllun um nýlega skýrslu um viðræðurnar. Við munum passa okkur á því að afhenda þetta í tíma áður en drastískar ákvarðanir eru teknar,“ sagði Jón Steindór í viðtali við Vísi í vikunni.

Mjög hefur hægt á undirskriftasöfnunni síðustu daga en um 25 þúsund manns skráðu nafn sitt á listann á fyrstu tveimur dögum undirskriftasöfnunarinnar.

Hnappur á síðunni heimilar að kanna hvort kennitölu einstaklings er að finna á undirskriftalistanum og er þá í kjölfarið hægt að tilkynna skráninguna, kjósi kennitöluhafi að vera fjarlægður af listanum.

Aðspurður segir Jón Steindór að einungis örfáar tilkynningar hafi borist um að kennitölur séu settar á síðuna í óþökk fólks, þær hlaupi ekki á tugum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×