Erlent

40 flóttamanna saknað eftir að fleki sökk í Miðjarðarhafi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá björgunarstörfum ítölsku landhelgisgæsunnar.
Frá björgunarstörfum ítölsku landhelgisgæsunnar. Vísir/AFP
Förutíu flóttamanna er saknað eftir að fleki sem þeir voru á sökk 50 kílómetrum frá austurströnd Líbýu, segir ítalskur landhelgisgæslumaður í samtali við Reuters.

Ítölsk hafnaryfirvöld sendu báta til móts við flekana og var 55 flóttamönnum bjargað um borð, en talið er að um 95 hafi verið á fleyinu. Hvorki tangur né tetur hefur fundist af þeim 40 sem saknað er.

Alls hafa því rúmlega 3000 flóttamenn látist það sem af er ári við að sigla yfir Miðjarðarhafið í átt að Ítalíu. Flestir þeirra koma frá stríðshrjáðum svæðum í Sýrlandi, Líbýu og Eritreu á austurströnd Afríku.  Mörgum hefur þó tekist siglingin og talið er að um 130 þúsund flóttamenn hafi náð ströndum Ítalíu í ár, borið saman við 60 þúsund allt árið í fyrra samkvæmt tölum frá Flóttamannstofnun Sameinuðu þjóðanna.

Vargöldin sem nú ríkir í Líbýu hefur leitt til þess að nær ómögulegt er að halda utan um fjölda þeirra sem flúið hafa landið á síðustu misserum. Talið er að menn, sem sérhæfa sig í flutningum flóttamanna frá landinu, rukki um 1000 dali, rúmlega 150 þúsund krónur, fyrir ferðina að ströndum Ítalíu.

Ítölsk stjórnvöld hleyptu af stokkunum átakinu „Mare Nostrum“ eða „Sjórinn okkar“ á síðasta ári en það felur í sér víðtækara eftirlit og hjálparstarf í Miðjarðarhafi eftir að 366 manns létust í skipsskaða sem varð undanströndum eyjunnar Lampedusa í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×