Erlent

350 saknað eftir aurskriðu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Gvatemala. Maður virðir skriðuna fyrir sér.
Frá Gvatemala. Maður virðir skriðuna fyrir sér. Vísir/AFP
Björgunarmenn leita nú að fólki í aurskriðu sem féll á úthverfi Gvatemalaborgar, höfuðborgar Gvatemala, í nótt. Minnst 56 létu lífið í skriðunni og um 350 er saknað eftir að skriðan fór yfir um 125 heimili. Líklegt þykir að fjöldi látinna muni hækka eftir því sem tíminn líður.

„Við höldum enn í vonina að finna fólk á lífi ef við höldum áfram að leita,“ sagði Sergio Cabanas, en hann samræmir aðgerðir á svæðinu.

Björgunarmenn notast við hunda við leitina en reglulega heyrist hátt flaut og þá stoppa allir og hlusta eftir hljóðum frá fólki sem er á lífi. Cabanas segir að nokkrir hafi sett sig í samband við sig sem segjast hafa fengið smáskilaboð frá ættingjum sem sitji fastir í rústum heimila sinna. Fjarskiptafyrirtæki hafa verið beðin um að reyna að staðsetja þá sem sent hafa skilaboð.

Björgunarmenn hafa fundið fólk á lífi nálægt jaðri skriðunnar en fyrir miðju hennar er skriðan um 15 metra þykk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×