Innlent

325 þúsund nöfn í málaskrá lögreglunnar

Alls eru 325 þúsund nöfn einstaklinga skráð í málaskrá ríkislögreglustjóra sem annars kerfisbundna skráningu upplýsingar um lögreglumálefni. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurnum Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Hreyfingarinnar, á Alþingi.

Hún spurði eftirfarandi spurninga:

1. Hversu margir einstaklingar eru á málaskrá lögreglu?

2. Hve lengi eru einstaklingar á skránni?

3. Hvert er tilefni þess að einstaklingar eru settir á skrána?

Í svari ráðherrans kemur fram að lögreglan hafi safnað upplýsingum í málaskrána frá árinu 1988 en öll lögregluembættin höfðu fyrst tengst miðlægum gagnagrunnum lögreglu í upphafi ársins 1998. Árlega eru skráð um 200.000 mál í lögreglukerfið vegna kærðra brota og annarra verkefna lögreglunnar og í málunum eru skráðar upplýsingar um þá einstaklinga og fyrirtæki sem tengjast brotum og verkefnum lögreglunnar. Samtals hafa 19.621 fyrirtæki og 325.003 einstaklingar verið skráðir hjá lögreglu. Af þeim eru 38.275 erlendir ríkisborgarar og 19.754 látnir. Ástæða skráningar getur verið af margvíslegum toga, sem vitni, tilkynnendur, farþegar í umferðaróhappi, tjónþolar, kærendur, kærðir og svo framvegis.

Þá kemur fram í svari ráðherrans að engin ákvæði eru um eyðingu upplýsinga í gagnagrunnum lögreglu. Hann fullyrðir hinsvegar að það séu mjög öflugar aðgangsstýringar að gögnum í lögreglukerfinu og almennur aðgangur lögreglumanna og annarra starfsmanna lögreglu miðast aðeins við að sjá skráð gögn síðustu fimm ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×